Stefnir í neyðarástand og þúsundir án heimilis

Maður syndir á milli húsa í Kerson.
Maður syndir á milli húsa í Kerson. AFP

Þúsundir hafa yfirgefið heimili sín í kjölfar þess að Kakhovka-stíflan brast eftir sprengingu í gær.

Flóðbylgjan sem reið yfir Kakhova, nærliggjandi þorp og býli hefur leitt til þess að þúsundir eru heimilislausir. Hvarvetna eru húsnæði ónýtt og margir ganga frá heimilum sínum með ekkert nema fötin sem þau ganga í.

Flúði ásamt fimm börnum 

„Það er ekki einu sinni hægt að sjá þakið á húsinu okkar,“ er haft eftir hinum 46 ára gamla Dymytro Melnikov sem neyddist til að flýja heimili sitt ásamt fimm börnum sínum.

Íbúi reynir að bjarga verðmætum.
Íbúi reynir að bjarga verðmætum. AFP

Björgunarfólk hefur notast við litla báta til þess að aðstoða fólk á svæðinu og árfarvegur Dnipro sem rennur í gegnum Kerson hefur risið um heila fimm metra eftir að uppistöðulónið flæddi fram. 

Margir hentu sér til sunds til að bjarga lífi sínu eftir að flóðið reið yfir. Ein þeirra er hin 68 ára Natalya Korzh sem slapp naumlega úr húsi sínu með skrámur um allan líkamann. „Allt sem ég á var á floti í kringum mig. Ískápurinn, frystirinn, borð og hvaðeina sem var á heimilinu,“ segir hún í samtali við AFP.

Notast er við litla báta til að flytja fólk á …
Notast er við litla báta til að flytja fólk á þurrt. AFP

Viðbragðsaðilar segja að mest púður fari í að bjarga börnum og eldri borgurum á þurrt. Ungt fólk þarf að bjarga sér sjálft.

Vilja komast heim á ný 

Kerson er ein þeirra borga sem hefur orðið fyrir hvað mestu tjóni í stríðinu og sprengjum hefur rignt nær linnulítið frá því Rússar yfirgáfu borgina í nóvember síðastliðnum. 

Börn að leik í úthverfi Kerson.
Börn að leik í úthverfi Kerson. AFP

Íbúar hafa því mátt sitja undir hersetu, sprengingum og nú síðast flóðum. Fæstir kippa sér upp við loftvarnarflautur. 

Engu að síður segja flestir að þeir vilji komast að heimili sínu sem fyrst samkvæmt upplýsingum mannúðarsamtaka á svæðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert