Áformuðu hryðjuverk í Svíþjóð

Kóraninn var brenndur í mótmælaaðgerðum í Stokkhólmi á síðasta ári.
Kóraninn var brenndur í mótmælaaðgerðum í Stokkhólmi á síðasta ári. AFP

Tveir Afganir, með tengsl við hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið, voru handteknir í Þýskalandi í dag, grunaðir um að hafa ætlað að gera hryðjuverkaárás í nágrenni sænska þinghússins í Stokkhólmi til að hefna fyrir brennur á Kóraninum, trúarriti múslima.

Embætti ríkissaksóknara í Þýskalandi sagði í yfirlýsingunni, að mennirnir tveir, sem nefndir eru Ibrahim M. G. og Ramin N., hafi verið handteknir í Gera í austurhluta Þýskalands.

Í yfirlýsingunni segir að Íslamska ríkið hefði falið þeim fyrrnefnda að skipuleggja árásir í Evrópu til að bregðast við Kóranbrennum í Svíþjóð á síðasta ári. Mennirnir eru sakaðir um að hafa ætlað að beita skotvopnum gegn lögreglumönnum og öðrum í nágrenni þinghússins í Stokkhólmi. Þeir hafi rannsakað svæðið á netinu og reynt ítrekað en árangurslaust að komast yfir skotvopn. 

Mennirnir eru einnig sakaðir um að hafa safnað um það bil 2 þúsund evrum, jafnvirði um 300 þúsund króna, fyrir Íslamska ríkið.

Viðbúnaður hefur verið í Svíþjóð í kjölfar ítrekaðra Kóranbrenna þar á síðasta ári sem vöktu mikla reiði meðal múslima víða um lönd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert