Olíusjóður Norðmanna hagnast um tæpar 14 billjónir

Enn bólgnar olíusjóður Norðmanna.
Enn bólgnar olíusjóður Norðmanna. AFP

Norski olíusjóðurinn hagnaðist um meira en 100 milljarða Bandaríkjadala á fyrstu þremur mánuðum ársins. Hagnaðurinn samsvarar rúmlega 14 bill­jón­um ís­lenskra króna. 

Heildarvirði sjóðsins nemur nú rúmum 225 billjónum íslenskra króna. 

„Hlutabréfafjárfestingar okkar skiluðu mjög sterkri ávöxtun á fyrsta ársfjórðungi, sérstaklega fjárfestingar í tæknigeiranum,“ segir aðstoðarforstjóri sjóðsins, Trond Grande. 

Hagnast á hækkun á hlutabréfamarkaði

Ávöxtun sjóðsins nam 6,3% á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Hlutabréfaeign sjóðsins skilaði honum töluverðri ávöxtun, eða 9,1%. Velgengnina má rekja til hækkunar á hlutabréfamarkaði þar sem útlit er fyrir lækkandi vexti. 

Skuldabréfafjárfestingar sjóðsins lækkuðu um 0,4% á sama tímabili. Fasteignir og eignir í óskráðum endurnýjanlegum orkuverkefnum lækkuðu um 0,5 og 11,4%

Hver Norðmaður á 41 milljón í sjóðnum

Ol­íu­sjóður Norðmanna er sá stærsti sinn­ar teg­und­ar í heim­in­um. Sjóðurinn var stofnaður árið 1990 og miðar að því að fjármagna framtíðarútgjöld í hinu rausnarlega velferðarríki Noregs þar sem gert er ráð fyrir að tekjur af olíu- og gasútflutningi minnki til lengri tíma litið.

Gera má ráð fyrir að olíusjóðurinn nemi nú rúmri 41 milljón á hvern Norðmann en íbúafjöldi landsins er um 5,5 milljónir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert