Ákært í hrottalegu líkamsárásarmáli í Ósló

Ingunn Björnsdóttir dósent ber sig hetjulega og teflir björtu hliðunum …
Ingunn Björnsdóttir dósent ber sig hetjulega og teflir björtu hliðunum fram í viðtali við VG. Hún var hársbreidd frá bráðum dauða þegar háskólastúdent sem féll á prófi gerði hana ábyrga og stakk hana fjölmörgum sinnum. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ákæra hefur verið gefin út á hendur nemanda við Háskólann í Ósló fyrir tilraun til manndráps með því að hafa veist að Ingunni Björnsdóttur, dósent við Lyfjafræðistofnun skólans, 24. ágúst í fyrra og sært hana mörgum sárum með eggvopni. Þá tekur ákæran einnig til árásar á samkennara hennar.

Er nemandanum gefið að sök að hafa skorið í háls Ingunnar og veitt henni að auki fjölda stungusára víða um líkamann en talið er að snarræði annars kennara eitt hafi bjargað lífi hennar.

Nemandinn hafði fallið á prófi og brugðist ókvæða við. Fólu þau viðbrögð í sér að hann lagði leið sína í Lyfjafræðistofnun skólans og veittist þar að Ingunni er átti sér einskis ills von.

Tilraun til manndráps og líkamsárás

Annar Íslendingur er raunar saksóknari í málinu, Hulda Olsen Karlsdottir, héraðssaksóknari í Ósló, sem segir í viðtali við norska dagblaðið VG að allra forsendna njóti við til að ákæra grunaða fyrir tilraun til manndráps hvað Ingunni varðar og meiri háttar líkamsárás í tilfelli hins kennarans.

„Ég hef náð mér mjög vel en ég hlaut einnig áverka sem kröfðust nokkurrar þjálfunar til aå koma mér í stand,“ segir Ingunn í samtali við VG. „Þetta gengur ótrúlega vel en er mikil vinna,“ segir hún enn fremur.

Hege Salomon, réttargæslulögmaður Ingunnar og samkennara hennar, kveður atburðinn hafa verið sérstaklega ógnvekjandi og hefði hann auðveldlega getað haft banvænar afleiðingar. Lífsbjörg Ingunnar hefði verið samstarfsmaðurinn sem yfirbugaði nemandann á elleftu stundu. Verjandi ákærða kýs að tjá sig ekki um málið.

Komin í mark líkamlega

Við rannsókn málsins óskaði lögregla eftir geðrannsókn á grunaða sem er á þrítugsaldri og tilnefndi Héraðsdómur Óslóar tvo fagmenn til verksins. Að loknu mati sínu skiluðu þeir því áliti að grunaða hefði verið fullljóst hvað hann aðhafðist á verknaðarstundu og bæri hann þar með refsiábyrgð á gjörðum sínum.

Ingunn tjáir blaðamanni VG að á sjúkrahúsinu hafi hún upplifað djúpstæða gleði yfir að hafa lifað árásina af. „Ég er ekki alveg komin í mark líkamlega en árangurinn hefur þó verið mun betri en ég ímyndaði mér þegar ég lá á sjúkrahúsinu. Enginn vafi leikur á því að málalok réðust af því að aðrir gripu inn í atburðarásina,“ segir Ingunn sem ber sig vel eftir fáheyrðan atburð í norskum háskóla.

Aðalmeðferð málsins hefur verið valinn tími dagana 26. til 29. ágúst. Ákæruvaldið krefst upptöku tveggja hnífa en auk þess er skaðabótakrafa kennaranna sett fram í málinu.

VG

NRK

Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert