Fengu skaðabætur eftir falsað viðtal við Schumacher

Michael Schumacher, fyrrum Formúlu 1 ökuþór.
Michael Schumacher, fyrrum Formúlu 1 ökuþór. AFP/ Orlando Kissner

Fjölskylda Michaels Schumacher, fyrrum Formúlu 1 ökumanns, vann dómsmál gegn þýska tímaritinu Die Aktuelle í dag.

Tímaritið falsaði viðtal við Schumacher í apríl í fyrra þar sem notast var við gervigreind. Í fyrirsögn greinarinnar var staðhæft að Schumacher hafi veitt sitt fyrsta viðtal eftir að hafa hlotið alvarlegan heilaskaða í skíðaslysi í frönsku Ölpunum árið 2013. Greinin innihélt einnig falsaðar tilvitnanir sem voru gerðar með gervigreind.

Báðu Schumacher og fjölskyldu afsökunar

Þýska blaðið Bild greindi frá því í dag að fjölskyldan hafi fengið 200 þúsund evrur í skaðabætur, sem jafngildir rúmum 30 milljónum íslenskra króna.

Útgefandi tímaritsins hefur áður beðið Schumacher og fjölskyldu hans opinberlega afsökunar. Eftir að greinin birtist var aðalritstjóranum Anne Hoffmann sagt upp störfum.

Schumacher hefur ekki sést opinberlega síðan hann slasaðist og hefur verið í umönnun á heimili fjölskyldunnar í Sviss síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert