Margir alvarlega slasaðir á sjúkrahúsi í Bangkok

Samitivej Srinakarin sjúkrahúsið í Bangkok.
Samitivej Srinakarin sjúkrahúsið í Bangkok. AFP

Farþegarnir sem slösuðust þegar flugvél Singapore Airlines lenti í mikilli ókyrrð á leið frá Lundúnum til Singapúr fyrr í þessari viku hlutu höfuðkúpu-, heila- og mænuskaða.

Frá þessu greindi yfirmaður sjúkrahússins í Bangkok í Taílandi í dag en 40 manns eru enn á sjúkrahúsi, þar af 20 á gjörgæslu, eftir atvikið. 

73 ára gamall Breti lést úr hjartaslagi í fluginu og 104 slösuðust og þeirra á meðal var einn Íslendingur sem var um borð. 211 farþegar voru um borð í vélinni auk 18 manna áhafna.

Adinun Kittiratanapaibool, forstjóri Samitivej Srinakarin sjúkrahússins í Bangkok, segir að starfsmenn sjúkrahússins séu að meðhöndla sex manns vegna höfuðkúpu- og heilaskaða, 22 vegna mænuskaða og 13 vegna bein-, vöðva- og annarra áverka.

„Við höfum aldrei meðhöndlað fólk með svona meiðsli af völdum ókyrrðar,“ sagði forstjórinn við fréttamenn í dag og bætti við að hinir slösuðu sem eru á sjúkrahúsinu séu á aldrinum tveggja til 83 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert