Skólum lokað vegna hitabylgju

Verkamaður í Sukhur í Pakistan svalar sér á vatni í …
Verkamaður í Sukhur í Pakistan svalar sér á vatni í hitanum. AFP

Skólar í Punjab í Pakistan hafa verið lokaðir vegna hitabylgju. Um 26 milljónir barna í leik-, grunn-, og framhaldsskóla í héraðinu geta ekki sótt kennslu vegna hitabylgjunar, en þetta er meira en helmingur barna í Pakistan.

Hiti í Punjab er sem stendur sex til átta gráðum yfir eðlilegu hitastigi en spáð er allt að 46 gráða hita í höfuðborg Punjab, Lahore, um helgina. 

Veðurstofa Pakistan hefur spáð þremur hitabylgjum, þeirri sem stendur yfir núna og tveimur öðrum sem eiga að skella á í júní. Íbúar sumra svæða í Pakistan sjá fram á allt að 15 klukkustunda rafmagnsleysi þar sem eftirspurn eftir loftkælingu eykst.

Pakistan er ofarlega í hópi landa sem eru viðkvæm fyrir öfgaveðuratburðum sem eru tengdir við loftslagsbreytingar.

Samkvæmt Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, verða 460 milljónir barna í Suður-Asíu að lifa í hita yfir 35 gráðum í að minnsta kosti 83 daga á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert