Vaknaði upp úr dái einu ári seinna með hálfan heila

Unglingsstúlka í Tustin í Kaliforníu í Bandaríkjunum bauð örlögunum byrginn er hún vaknaði upp af dái þrátt fyrir yfirlýsingar lækna um að hún myndi ekki gera það. Jessica Diaz hafði verið sofandi í rúmt ár þegar hún vaknaði á þriðjudaginn. Hún fæddi barn 13. janúar 2002 og gekkst að lokinni fæðingunni undir uppskurð vegna heilaæxlis og féll í dauðadá á meðan á honum stóð.

Jessica getur núna með aðstoð annarra knúsað son sinn Julio Jr. og snert andlit hans. Hún var meira að segja í viðtali við sjónvarpsstöð í gær. Jessica var 17 ára þegar hún ól Julio. Hún gat varla séð nýfæddan son sinn þar sem heilaæxlið byrgði henni sín á öðru auga og dró úr sýn hins augans. En hún hélt Julio, sem heitir í höfuðið á föður sínum, og sagði honum að hún myndi koma aftur seinna til að annast hann. Daginn eftir fjarlægðu læknar æxlið, sem hafði vaxið hratt. Þegar aðgerðin hafði staðið í tíu mínútur féll Jessica í dauðadá.

Þegar móðir Jessicu bankaði á opnar dyrnar á herbergi dóttur sinnar á Tustin-sjúkrahúsinu sneri Jessica höfðinu í átt að dyrunum í fyrsta skipti í rúmt ár.

„Ég bara fraus,“ sagði Eva og tár komu í augu hennar. „Hjúkrunarkonurnar komu og ég sagði „Hún hreyfði sig!“ Þær sögðu „áfram mamma, áfram“,“ bætti Eva við.

Læknar telja að Jessica hafi vaknað upp úr dáinu vegna þess að heilinn hafi vanist þrýstingnum inni í höfuðkúpunni og myndað nýjar leiðir fyrir taugaboð í stað þeirra sem glötuðust þegar hálfur heilinn var skorinn burt í aðgerðinni.

Læknarnir vilja að Jessica fari í umfangsmikla endurhæfingu á líkamanum, í iðjuþjálfun og talþjálfun. Hún getur lyft handleggjunum en hún getur ekki brosað, talað eða gengið og gerir sig skiljanlega með því að hreyfa augun, einu sinni upp til að segja nei og tvisvar sinnum til að segja já.

Hún var í stuttu viðtali við sjónvarpsstöð í Los Angeles, KCBS, á sunnudag. Hún játaði þegar hún varð spurð að því hvort hún hefði orðið móður sinnar vör þar sem hún sat við rúm hennar á sjúkrahúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert