Margar sprungur koma í ljós í Þriggja gljúfra stíflunni

Uppistöðulónið er nú orðið skipafært.
Uppistöðulónið er nú orðið skipafært. AP

Kínverskir embættismenn brutu odd af oflæti sínu í gær og viðurkenndu að ef ekki yrði gert við sprungur, sem komið hafa í ljós í Þriggja gljúfra stíflunni í Yangztefljóti í Kína kunni stíflan að leka. Til þessa hafa kínversk stjórnvöld fullyrt að allt hafi gengið samkvæmt áætlun frá því flóðgáttum stíflunnar var lokað um síðustu mánaðamót og uppistöðulón fór að myndast. Hefur vatnið nú náð nægilegri hæð þannig að skip geta siglt á lóninu. Þá viðurkenndu embættismenn einnig, að ræktarland sem bændum hefur verið úthlutað í stað lands sem fer undir vatn vegna virkjunarinnar, sé ekki nægilega frjósamt.

Eftirlitsmenn hafa fundið um 80 sprungur í stíflunni, að sögn Pan Jiazhongs, yfirmanns eftirlitsnefndarinnar. Sagði hann að sprungurnar ógnuðu ekki öryggi á svæðinu en þær gætu farið að leka ef ekki yrði gert við þær.

Kínverskir embættismenn segja að með stíflunni sé hægt að koma í veg fyrir síendurtekin flóð í Yangtze og framleiða rafmagn sem kínverskur iðnaður þarf á að halda. En þeir sem gagnrýnt hafa framkvæmdina segja að mengun í ánni gæti aukist vegna stíflunnar þar sem skólp og úrgangur frá iðnaði muni safnast þar upp. Segja þeir einnig að ef eitthvað fari úrskeiðis muni það valda miklum hörmungum á þéttbýlu svæði.

Alls verða um 1,3 milljónir manna fluttir frá heimilum sínum sem fara undir vatn þegar uppistöðulónið fyllist. Þegar er búið að flytja um 720 þúsund manns á brott. Tugir bæja og lítilla borga eru komin undir vatn og hafa þrettán stórir bæir verið endurbyggðir. Segja stjórnvöld að allar aðstæður þar séu betri en á svæðunum sem fara undir vatn.

En Guo Shuyan, fyrirmaður byggingarnefndar virkjunarinnar, segir að ekki sé nægilegt ræktarland fyrir bændur sem fluttir hafa verið til og það land sem stendur til boða sé ekki nægilega frjósamt. Segir Guo að verið sé að fara yfir málið og skoða ýmsar lausnir, svo sem að bændur snúi sér að ávaxtarækt, ferðaþjónustu og öðrum störfum.

Yfirborð vatnsins á að fara upp í 175 metra hæð. Þá mun það þekja 632 ferklómetra svæði.

Bátur siglir á Yangzte í Wu gljúfri, einu af gljúfrunum …
Bátur siglir á Yangzte í Wu gljúfri, einu af gljúfrunum þremur sem stíflan er kennd við. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert