Forseti Austurríkis látinn

Thomas Klestil ásamt eiginkonu sinni, Margot Klestil-Loeffler, í Peking fyrir …
Thomas Klestil ásamt eiginkonu sinni, Margot Klestil-Loeffler, í Peking fyrir nokkrum árum. AP

Thomas Klestil, forseti Austurríkis, lést í kvöld, 71 árs að aldri. Hann var fluttur á sjúkrahús í Vín í gær eftir að hafa fengið hjartaáfall og lést klukkan 21:33 að íslenskum tíma án þess að komast til meðvitundar. Læknar höfðu fyrr í dag sagt að litlar líkur væri á að forsetinn lifði veikindin af. Wolfgang Schüssel, kanslari, tók við skyldum forsetans þegar hann veiktist í gær en Heinz Fischer, sem sigraði í forsetakosningum fyrr á þessu ári, mun nú taka við embættinu fyrr en ætlað var. Klestil gat ekki boðið sig fram í kosningunum þar sem hann hafði gegnt embættinu í tvö sex ára kjörtímabilinu. Síðara kjörtímabilinu átti að ljúka á fimmtudag.

Klestil var á leiðinni á blaðamannafund í gær þar sem hann ætlaði að flytja kveðju- og þakkarorð en fékk hjartaáfall í þann mund sem hann var að yfirgefa embættisbústað sinn. Öryggisverði tókst að fá hjarta Klestils til að slá á ný og forsetinn var síðan fluttur á sjúkrahús með þyrlu en hann komst aldrei til meðvitundar.

Klestil átti nokkrum sinnum átt við alvarleg veikindi að stríða á meðan hann var forseti. Hann var frá vinnu í nokkrar vikur árið 1996 vegna lungnabólgu og hann fékk aftur lungnabólgu á síðasta ári.

Forsetaembættið í Austurríki er að mestu valdalaust en forsetinn er þó formlegur yfirmaður austurríska hersins og hann hefur einnig vald samkvæmt stjórnarskránni til að hafna tilnefningum í forsetaembætti og jafnvel reka ráðherra úr embætti en það hefur afar sjaldan gerst.

Klestil starfaði í austurrísku utanríkisþjónustunni og var m.a. sendiherra Austurríkis í Bandaríkjunum og hjá Sameinuðu þjóðunum. Hann tók við embætti af Kurt Waldheim, sem var mjög umdeildur eftir að upplýsingar komu fram um tengsl hans við nasista á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Waldheim, sem áður var framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, leyndi því að hann hefði gegnt herþjónustu í SS sveitunum.

Klestil notaði oft tækifærið til að tala um helförina og gagnrýna þátt Austurríkismanna í ofsóknum nasista gegn gyðingum. Hann gerði þetta m.a. að umtalsefni í heimsókn til Ísraels þegar hann flutti ræðu í ísraelska þinginu.

Klestil var frambjóðandi Þjóðarflokksins, núverandi stjórnarflokks landsins, þegar hann bauð sig fyrst fram til forseta, en flokkurinn féll síðar frá stuðningi við Klestil vegna deilna milli forsetans og Schüssels, formanns flokksins. Klestil var m.a. andvígur því þegar Schüssel bauð Frelsisflokki Jörgs Haiders til stjórnarsamstarfs árið 2000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert