Uppreisnarmenn í Írak sagðir fleiri en 200 þúsund

Uppreisnarmenn í Írak hafa gert mikið af árásum nú fyrir …
Uppreisnarmenn í Írak hafa gert mikið af árásum nú fyrir kosningarnar 30. janúar. AP

Uppreisnarmenn í Írak eru fleiri en 200 þúsund talsins, segir Mohamed Abdullah Shahwani, yfirmaður írösku leyniþjónustunnar. „Ég tel að fleiri andspyrnumenn séu í Írak heldur en bandarískir hermenn. Ég tel að þeir séu meira en 200 þúsund,“ segir Shahwani. Hann segist telja að um 40.000 séu mjög virkir í baráttunni en hinir séu þeir sem taka stundum þátt, eða hjálpa til með einhverju móti, t.d. veita upplýsingar um herliðið eða húsaskjól.

Þetta er langtum meiri fjöldi en bandaríski herinn í Írak hefur nokkurn tímann gefið upp en hann hefur reynt að fá upplýsingar um fjöldann síðan Saddam Hussein var steypt af stóli í apríl 2003. Hafa þar heyrst tölur á borð við 5.000-20.000.

Shahwani segir að uppreisnarmennirnir njóti einkum stuðnings í héruðunum Baghdad, Babel, Salahuddin, Diyala, Nineveh og Tamim en þar búa Súnni-múslimar sem einkum óttast um sinn hag eftir kosningarnar í landinu 30. janúar.

Hann segir að uppreisnarmenn sæki styrk sinn til ættflokkahöfðingja og í hinn 400.000 manna íraska her sem Bandaríkjamenn leystu upp eftir að þeir höfðu steypt Saddam af stóli. „Fólk er orðið þreytt eftir tvö ár án betri lífskjara. Fólk er þreytt á því að búa ekki við öryggi og ekkert rafmagn. Fólki finnst það þurfa að gera eitthvað. Í hernum voru hundruð þúsundir manna. Maður býst við að einhverjir fyrrverandi hermenn hafi gengið í lið með ættingjum sínum, sonum og bræðrum.“

Uppreisnarmennirnir hafa breytt heilu borgarhverfunum og smábæjum í svæði þar sem enginn vogar sér að stíga fæti. Undantekningar nú eru svæði sem Bandaríkjaher hefur ráðist inn í eins og Samarra. Shahwani efast þó um að sú aðgerð hafi verið réttmæt. „Það sem stendur eftir er galtóm borg sem nánast er búið að leggja í rúst ... og flestir uppreisnarmennirnir ganga enn lausir. Þeir fóru til Mosul eða Bagdad eða annarra svæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert