Margrét Danadrottning frestaði ferð sinni til Mexíkó vegna slitgigtar

Margrét Danadrottning hefur frestað fyrirhugaðri opinberri heimsókn sinni til Mexíkó í október næstkomandi af heilsufarsástæðum. Drottningin, sem er 65 ára, hefur átt við slitgigt að stríða undanfarna mánuði en gigtin veldur kvölum í baki og í hnjám.

Í orðsendingu frá konungshöllinni kemur fram, að löng ferð frá Danmörku til Mexíkó væri drottningunni einkar erfið. Hafi hún farið að ráðum lækna sinna, sem hún hafi verið í meðferð hjá við gigtinni, og hafi hún því hætt við ferðina.

Þetta er önnur ferðin sem Margrét frestar til Mexíkó á þessu ári. Í janúar síðastliðnum tilkynnti ríkistjórn landsins, að þingkosningar yrðu haldnar 8. febrúar og var Margrét að fresta för sinni og eiginmanns síns, Hinrik prins, sem áætluð hafði verið dagana 7. til 11. febrúar.

Í júní síðastliðnum uppgötvuðu læknar að slitgigt í baki Margrétar drottningar hafði versnað til muna og skipuðu þeir henni að draga úr opinberum athöfnum. Þótt hún hafi ekki þurft á skurðaðgerð að halda, þá er hún enn í meðferð hjá læknum.

Margrét Danadrottning hefur þegar þurft að leggjast nokkrum sinnum undir hnífinn vegna slitgigtar bæði á hnjám og baki frá árinu 1992.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert