Örlög um Hans-eyju talin ráðast í dag

Hans Ø er aðeins 1,3 ferkílómetrar að stærð og þakin …
Hans Ø er aðeins 1,3 ferkílómetrar að stærð og þakin ís mest allt árið.

Örlög Hans-eyju gætu ráðist í dag þegar þeir Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, og Pierre Pettigrew, utanríkisráðherra Kanada, munu hittast á fundi síðdegis og ræða um yfirráðarétt yfir eyjunni. Löndin hafa bitist um rétt yfir Hans-eyju, sem er örsmá eyja undan norðvesturströnd Grænlands, síðan árið 1973.

Að sögn danska ríkisútvarpsins í dag er það ekki eyjan sem slík sem vekur áhuga stjórnvalda landanna heldur möguleikinn á olíuvinnslu á svæðinu og stjórn með umferð skipa yfir Atlantshaf þegar íshellan á Norðurpólnum verður bráðnuð í kjölfar hækkandi hitastigs á jörðinni.

Hans-eyja, sem er 1,3 ferkílómetrar að stærð, er á milli Ellesmere Island og Grænlands. Í landamærasamkomulagi Dana og Kanadamanna frá árinu 1973 var dregin lína um mitt Nares-sund en ákveðið að bíða með að fjalla um yfirráð yfir Hans-eyju.

Fastlega er búist við því að ráðherrarnir nái samkomulagi um örlög eyjarinnar með friðsamlegum hætti. Að öðrum kosti verða þeir að senda herskip til hennar og berjast um að verða fyrstir til að rífa niður fána annars landsins og koma sínum eigin fyrir, að sögn danska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert