Forseti Írans vill „þurrka Ísrael af yfirborði jarðar“

Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad.
Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad. Reuters

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, telur að árásir Palestínumanna á Ísrael muni á endanum leiða til þess að Ísraelsríki veði „þurrkað af yfirborði jarðar“. Sagði hann þetta í ræðu á ráðstefnu í Tehran sem ber yfirskriftina The World without Zionism eða Heimurinn án síonisma. Neitaði hann alfarið að viðurkenna ríki gyðinga og vildi alls engin tengsl við það hafa.

„Án efa mun hin nýja bylgja árása í Palestínu þurrka þennan smánarblett [Ísrael] af yfirborði hins íslamska heims,“ sagði hann við nemendur sem hlýddu á hann. „Þeir sem viðurkenna Ísrael munu brenna í heiftareldi hinnar íslömsku þjóðar,“ sagði forsetinn og bætti við að ef einhver leiðtogi hins íslamska heims myndi viðurkenna ríki gyðinga, þá myndi sá hinn sami viðurkenna um leið uppgjöf og ósigur múslimaríkisins í heild. Ahmadinejad vísaði í orð erkiklerksins Ayatollah Khomeini sem vildi tortíma Ísrael.

Forsetinn sagði ennfremur að sú ákvörðun Ísraelsstjórnar að rýma landnemabyggðir sínar á Gaza-svæðinu væri bara brella til þess að fá íslömsk ríki í lið með sér. Stríð Palestínumanna væri stríð allrar hinnar íslömsku þjóðar við „fáfróðan heiminn“.

Ekkert andsvar barst frá stjórnvöldum í Ísrael en Scott McClellan, talsmaður Hvíta hússins, sagði þetta ýta undir áhyggjur bandarísku stjórnarinnar af kjarnorkuáætlun Írana. Ahmadinejad lýsti því yfir í sumar, er hann var kjörinn forseti, að tímaskeið "kúgunar, einræðis og óréttlætis væri lokið" og bætti því við að senn myndi "íslamska byltingin ná til heimsbyggðarinnar allrar."

Ahmadinejad hefur oftlega vísað til „hreinleika" fyrstu ára byltingarinnar sem gerð var árið 1979 þegar erkiklerkurinn Khomeini og fylgismenn hans tóku völdin í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert