Nektarmynd af borgarstjóraefni Danska þjóðarflokksins olli usla

Mörgum íbúum Kaupmannahafnar svelgdist á morgunkaffinu og vínarbrauðinu þegar þeir ráku augun í veggspjald á leið til vinnu sinnar í morgun. Á spjaldinu gat að líta nektarmyndir af Louise Frevert, borgarstjóraefni Danska þjóðarflokksins (DF), sem styður minnihlutastjórn Foghs Rasmussens. Ekki er vitað hver hengdi veggspjöldin upp.

Þessir óprúttnu aðilar hafa haft mikið fyrir uppákomunni en þeir þurftu að láta útbúa og prenta nokkurn fjölda veggspjalda sem litu út eins og kosningaáróður. Á kosningaspjöldum Ferverts getur að líta hana með litaðar og glansandi varir en á nýju fölsuðu spjöldunum, sést Fervert nakin og í grófum kynferðislegum stellingum. Louise Fervert, sem er 52 ára, lék í klámmyndum á sínum yngri árum á áttunda áratug síðustu aldar og hefur ekki farið leynt með sitt fyrra líf, að sögn danska dagblaðsins Berlinske Tidende.

Frevert var að vonum hneyksluð þegar hún heyrði af fölsuðu veggspjöldunum. Þau þykja ekki auka fylgi hennar en Fervert sætti harðri gagnrýni eftir að hún birti óhróður um múslima á vefsíðu sinni fyrir nokkru.

Arvin Storgaard, formaður danska þjóðarflokksins var ævareiður þegar hann frétti af því að fölsuð veggspjöld væru í umferð. Hann var hins vegar ekki reiður Frevert heldur þeim sem settu þau upp. „Það er undir Louise komið hvort hún vill kæra mennina fyrir ærumeiðingar. Mér finnst hátterni sem þetta óþverraleg,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert