Öfgahópur í Pakistan leggur hálfa milljón til höfuðs dönskum teiknurum

Danska utanríkisráðuneytið hefur varað danska borgara sem fara til Pakistans við því að þeir kunni að vera í hættu eftir að stjórnmálaflokkur strangtrúaðra þar í landi lagði fé til höfuðs dönskum teiknara fyrir að gera myndir af Múhameð spámanni er birtust í blaðinu Jyllands-Posten.

Frá þessu greinir The Copenhagen Post. Það var í september sem Jyllands-Posten birti tólf myndir, sem reyndar voru eftir tólf teiknara, af spámanninum. Múslímar í Danmörku mótmæltu harðlega, og einnig bárust mótmæli frá allmörgum múslímaríkjum. Samkvæmt Kóraninum er það guðlast að sýna spámanninn á mynd.

Í kjölfarið hófust mótmælaaðgerðir í Pakistan og í gær greindi Berlingske Tidende frá því að pakistanskur stjórnmálaflokkur strangtrúaðra, Jamaat-e-Islami, og æskulýðsfylking hans, hefði lagt 50.000 danskar krónur, eða um hálfa milljón íslenskra króna, til höfuðs teiknaranum sem gert hafi myndirnar. Telji flokksmenn ranglega að einn teiknari hafi gert allar myndirnar tólf.

Haft er eftir danska sendiherranum í Pakistan, Bent Wigotski, að flokkurinn hafi einnig krafist þess að dönskum sendifulltrúum verði vísað úr landi. Wigotski segist ekki hafa nein áform um að hverfa úr landi, en viðurkennir að málið sér alvarlegt.

„Það getur verið að þeir reyni að hafa hendur í hári dönsku teiknaranna, en ef þeir ná ekki til þeirra kunna þeir að finna sér blóraböggul,“ segir Wigotski. Sá blóraböggull geti orðið hver sem er, segir sendiráðið, og þess vegna hafa danskir borgarar verið varaðir við því að fara til Pakistans.

Sendiherra Pakistans í Danmörku, Javed Qureshi, fordæmir líflátshótanirnar. „Pakistönsk stjórnvöld munu aldrei lýsa stuðningi við svonalagað. Ég er sannfærður um að ríkisstjórnin mun grípa til aðgerða vegna málsins. Ég get ekki ímyndað mér annað en það sé brot á pakistönskum lögum að setja peninga til höfuðs fólki með þessum hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert