Írakar í Danmörku og Suður-Svíþjóð kusu utan kjörstaðar í Bella Center í Kaupmannahöfn

Mikill öryggisviðbúnaður er við Bella Center í miðborg Kaupmannahafnar en þar skila þeir 15.000 Írakar, sem búsettir eru í Danmörku og í Suður-Svíþjóð, atkvæðum sínum utan kjörstaðar fyrir þingkosningarnar sem hefjast í Írak á fimmtudag.

Lögreglan í Kaupmannahöfn hefur aukið eftirlit til muna á lestarstöðvum og leitar á kjósendum með málmleitartækjum til að koma í veg fyrir að þeir komist á kjörstað með óviðkomandi eða hættulega hluti.

Mikkel Thrane, talsmaður dönsku öryggislögreglunnar, sagði í samtali við danska dagblaðið Jyllands-Posten í dag að viðbúnaður hafi verið aukinn til muna. „Allir vita hvernig málum er háttað í Írak og þess vegna er ljóst að við fylgjumst náið með kjósendum í Danmörku,“ sagði hann.

Ammar K. Hamdan, sem hefur umsjón með atkvæðagreiðslunni í Danmörku, sagðist búast við góðri kosningu, eða meira en 87% þátttöku. „Írakar vita að íraska þjóðin hefur umsjón með kosningunum og því munu fleiri kjósa nú en í janúar,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert