Jyllands-Posten biður múslima afsökunar

Tómar hillur í verslun í Sádi-Arabíu þar sem áður voru …
Tómar hillur í verslun í Sádi-Arabíu þar sem áður voru danskar vörur. Á spjaldinu stendur: Því miður. Við seljum ekki danskar vörur. AP

Danska dagblaðið Jyllands-Posten baðst í kvöld afsökunar á því að hafa móðgað múslima með því að birta 12 skopteikningar af Múhameð spámanni í haust. Myndirnar hafa valdið uppnámi meðal múslima um allan heim og eru danskar vörur nú sniðgengnar í Miðausturlöndum og víðar. Einnig hafa íslamskir öfgamenn hótað Dönum og öðrum Norðurlandabúum.

„Teikningarnar 12 voru að okkar mati hófstilltar og þeim var ekki ætlað að vera móðgandi. Þær brutu ekki í bága við dönsk lög en margir múslimar telja þær móðgandi og á því viljum við biðjast afsökunar," segir m.a. í yfirlýsingu sem birtist á fréttavef blaðsins og Carsten Juste, aðalritstjóri, skrifar undir.

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina TV2 í kvöld, að danska ríkisstjórnin gæti ekki beðist afsökunar fyrir hönd dansks dagblaðs. „Þannig virkar ekki okkar lýðræði," sagði hann. „Ríkisstjórnin ritstýrir ekki óháðum fjölmiðlum."

Þegar hann var spurður hvað honum þætti sjálfum um málið svaraði Fogh Rasmussen: „Ég ber það mikla virðingu fyrir trúarskoðunum fólks, að ég hefði aldrei sýnt Múhameð, Jesús eða aðrar trúarlegar persónur í ljósi sem gæti móðgað annað fólk."

Yfirlýsing Jyllands-Posten

Carsten Juste, ritstjóri Jyllands-Posten.
Carsten Juste, ritstjóri Jyllands-Posten. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert