Bjargaði sér með því að þykjast vera Íslendingur

Íranskir mótmælendur hafa tekið skjaldarmerkið af norska sendiráðinu í Teheran.
Íranskir mótmælendur hafa tekið skjaldarmerkið af norska sendiráðinu í Teheran. Reuters

Norska blaðakonan Line Fransson skýrði frá því í pistli sínum í vefútgáfu norska dagblaðsins Dagbladet, að trúlegast hefur það bjargað lífi hennar að þykjast vera Íslendingur. Fransson er stödd í Teheran og sendir pistla þaðan. Hún var stödd við róstursöm mótmæli fyrir utan danska sendiráðið þegar atvikið átti sér stað.

Lögreglan og óeinkennisklæddir öryggisverðir sögðu henni í þrígang að það væri ekki óhætt fyrir vestræna konu að láta sjá sig á svæðinu. Slæðuklæddar konur spurðu hana hvaðan hún væri og lét hún túlkinn sinn segja að hún væri frá Íslandi. „Gott, því ef þú værir frá Danmörku hefðum við drepið þig,” var svarið sem hún fékk.

Þá komu karlmenn úr hópnum til hennar, þeir brostu ekki eins og konurnar höfðu gert og sumir þeirra voru með klúta fyrir andlitinu. Spurningin um uppruna var endurtekin og hún heyrði Ísland nefnt á tali þeirra.

Þeir sögðu að eftir það sem Danir gerðu ættu þeir ekki erindi á íranskri grundu og því væri rétt að brenna sendiráð þeirra. Daginn eftir réðust mótmælendur að norska sendiráðinu og kveiktu í því. Sjá nánar á vefsíðu Dagbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert