Salman Rushdie, ásamt fleiri rithöfundum, gagnrýnir íslamska alræðisstefnu

Breski rithöfundurinn Salman Rushdie er einn þeirra sem skrifar undir …
Breski rithöfundurinn Salman Rushdie er einn þeirra sem skrifar undir yfirlýsinguna. Reuters

Ofbeldisverkin sem hafa fylgt í kjölfar birtinga skopmynda Jótlandspóstsins af Múhameð spámanni á Vesturlöndum sýna fram á hættuna sem stafar af íslamskri alræðisstefnu, en þetta segir Salman Rushdie og hópur annarra rithöfunda í sameiginlegri yfirlýsingu. Rushdie, franski heimsspekingurinn Bernard Henri-Levy og rithöfundurinn Taslima Nasreen, sem er í útlegð frá Bangladess, eru á meðal þeirra sem hafa skrifað undir yfirlýsinguna. Hún á að birtast á morgun í franska vikuritinu „Charlie Hebdo“, en það er eitt af þeim fréttablöðum í Frakklandi sem hefur endurbirt skopmyndirnar umdeildu.

„Eftir að hafa unnið sigur á fasisma, nasisma og Stalínisma, þá þarf heimurinn að fást við nýja alheimsógn; Íslamsisma,“ skrifa þeir.

„Við, rithöfundar, blaðamenn, hugsuðir, köllum eftir mótspyrnu gegn trúarlegri alræðisstefnu og að stuðlað verði að frelsi, jafnræði og veraldlegum gildum fyrir alla.“

Þeir bættu því við að átökin sem hafa brotist út vegna skopmyndanna sýni fram á nauðsyn þess að barist sé fyrir þessum almennu réttindum. Þeir segja að sigur muni ekki nást með vopnum heldur með hugmyndum.

„Það eru ekki átök ólíkra menningarheima né fjandskapur milli vesturs og austurs sem við erum að verða vitni að heldur alheimsátök sem lýðræðissinnar og guðveldissinnar standa andspænis,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert