Bush fjármagnar andóf gegn Kastró

Fídel Kastró verður 80 ára í næsta mánuði og hefur …
Fídel Kastró verður 80 ára í næsta mánuði og hefur stýrt Kúbu síðan 1959. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti samþykkti í dag 80 milljón dala áætlun til að hjálpa Kúbumönnum að styrkja lýðræði í landinu og gera Kúbumönnum kleift að losa sig undan „þrúgandi stjórn Fídels Kastró”.

Áætlunin gerir ráð fyrir því að á tveimur árum verði settar 80 milljónir dala í verkefni á borð við að koma „óritskoðuðu efni og upplýsingum” til Kúbumanna um gervihnött og netið. Einnig verður fé varið til að styrkja lýðræðisleg samtök og grafa undan áætlunum Kastró-stjórnarinnar á sviði efnahagsmála og á öðrum sviðum.

Ekki eru allir sannfærðir um að áætlun Bush sé góð hugmynd. Oscar Espinosa Chepe, kúbanskur hagfræðingur sem hlaut 20 ára fangelsisdóm fyrir andóf 2003 en var síðan sleppt af heilsufarsástæðum sagði í samtali við AFP fréttastofuna að Kúbumenn ættu að leysa sinn vanda sjálfir og að afskipti sem þessi gætu gert illt verra og flækt málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert