Bush undirritar lög um landamæragirðingu

Bush undirritar lögin í dag.
Bush undirritar lögin í dag. Reuters

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, undirritaði í dag lög sem heimila að upp verði sett um 1.100 kílómetra löng girðing meðfram landamærum Bandaríkjanna að Mexíkó. Girðingin á að hindra fólk í að komast ólöglega yfir landamærin. Felipe Calderon, forseti Mexíkó, sagði fyrr í mánuðinum að þessi aðgerð Bandaríkjastjórnar myndi flækja mikið samskipti ríkjanna.

Repúblikanaflokkurinn vonast til þess að þessi gjörningur muni auka fylgi þeirra í þingkosningunum sem fram fara í nóvember. „Okkur ber að tryggja landamæri okkar. Við tökum þá ábyrgð alvarlega," sagði Bush þegar hann undirritaði lögin í Hvíta húsinu í dag.

Bush hefur sagt að betra væri að koma á kerfi þar sem ólöglegir innflytjendur fengju leyfi til að vinna tímabundið í landinu. Milljónir ólöglegra innflytjenda væru þegar í landinu, byggju þar og ynnu. Bush segir að þeir sem vilji vinna eigi að geta unnið þau störf sem Bandaríkjamenn vilja ekki. Reuters segir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert