Vísbendingar um að mannleg mistök hafi valdið blóðbaðinu í Beit Hanoun

Frá tilræðisstaðnum í Beit Hanoun í morgun.
Frá tilræðisstaðnum í Beit Hanoun í morgun. AP

Amir Peretz, varnarmálaráðherra Ísraels, hefur gefið hernum fyrirmæli um að hlé verði gert á hernaðaraðgerðum á Gasasvæðinu eftir að nítján Palestínumenn létu lífið í sprengjuárás hersins á bæinn Beit Hanoun í morgun. Þá hefur hann kallað eftir rannsókn á málinu. „Varnarmálaráðherrann hefur gefið fyrirmæli um að sprengjuárásum á Gasa verði hætt þar til rannsókn atviksins hefur farið fram,” segir m.a. í yfirlýsingu ráðuneytisins.

Ísraelsher hefur staðfest að tólf sprengjum hafi verið varpað á svæðið og segir þeim hafa verið ætlað að lenda á svæði sem herskáir Palestínumenn hafi notað til að skjóta flugskeytum yfir landamærin til Ísraels í gær en svæðið mun vera í um 500 metra fjarlægð frá húsunum sem urðu fyrir árásinni. Ekki er enn ljóst hvort um tækibilun eða mannleg mistök var að ræða en fyrstu vísbendingar munu benda til þess að röng hnit hafi verið slegin inn.

Mjög hefur dregið úr sprengjuárásum Ísraelshers á Gasasvæðinu á undanförnum mánuðum þar sem Ísraelsher telur þær ekki skila árangri í baráttu hersins við flugskeytaárásir Palestínumanna. Herinn hefur þó haldið áfram að beita slíkum árásum í sérstökum tilfellum.

Sjö hús urðu fyrir árásinni í morgun og létu nítján íbúar þeirra lífið. Á meðal hinna látni eru átta börn og fjórar konur en ellefu meðlimir sömu fjölskyldu létu lífið í árásinni.

Átta Qassams-flugskeytum var skotið yfir landamærin til Ísraels í kjölfar árásarinnar. Þá gerði Ísraelsher fjórum herskáum Palestínumönnum fyrirsát í nágrenni Jenin á Vesturbakkanum í morgun og felldi þá. Þá var vegfarandi, sem varð vitni að atvikinu, skotinn til bana.

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, hefur lýst yfir þriggja daga þjóðarsorg í kjölfar árásarinnar og Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, sagði í morgun að Ísraelsmenn harmi dauða fólksins.„Ísrael reynir að koma í veg fyrir að saklausir borgarar verði fyrir árásum en því miður er ekki alltaf hægt að hindra harmleiki. Okkur þykir fyrir þessu," sagði Livni í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert