Yfirvöld vilja draga úr hárri sjálfsvígstíðni í Suður-Kóreu

Sjálfsvígstíðnin í Suður-Kóreu hefur tvöfaldast á sl. tveimur árum.
Sjálfsvígstíðnin í Suður-Kóreu hefur tvöfaldast á sl. tveimur árum. Reuters

Suður-kóresk heilbrigðisyfirvöld segjast vera með í undirbúningi herferð sem miðar að því að draga úr hárri sjálfsmorðstíðni í landinu, en hún hefur tvöfaldast á sl. fimm árum.

Þau segjast vera að íhuga ýmis skref t.d. að koma upp fleiri ráðgjafarmiðstöðvum og fjarlægja vefsíður sem gætu mögulega hvatt fólk til þess að taka sitt eigið líf, segir á fréttavef BBC.

Miklar umræður hafa skapast um sjálfsvíg í Suður-Kóreu eftir að nýjar tölur sýndu þeim íbúum landsins hefur fjölgað mjög sem binda enda á sitt eigið líf.

Þekkt leikkona féll fyrir eigin hendi nýverið í landinu og hefur það síður en svo dregið úr umræðum um sjálfsvíg.

Yuni, sem var leikkona og poppstjarna sem átti mikilli velgengni að fagna í heimalandinu, framdi sjálfsmorð í janúar sl. 26 ára að aldri.

Heilbrigðisyfirvöld í Suður-Kóreu segjast nú vera að undirbúa ýmsar aðgerðir svo sporna megi við vandanum, en þeir segja að rekja megi vandamálið til minnkandi hagsældar í landinu auk þess að samfélagið sé að taka örum breytingum.

Suður-Kóreumenn vonast til þess að þeir geti fylgt fordæmi Finna, sem fækkuðu sjálfsvígum um þriðjung á rétt rúmum áratug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert