Yfirgnæfandi líkur á hagnaði af Kárahnjúkavirkjun

Kárahnjúkar.
Kárahnjúkar.

Yfirgnæfandi líkur eru taldar á að Kárahnjúkavirkjun verði arðsöm. Þetta kemur fram í greinargerð nefndar sem eigendur Landsvirkjunar komu á laggirnar til að skila áliti um mat Landsvirkjunar á arðsemi og fjárhagslegri áhættu Kárahnjúkavirkjunar og sölu raforku til Fjarðaáls, fyrirhugaðs álvers Alcoa. Segist nefndin telja arðsemismat Landsvirkjunar vel rökstutt. Það sé hins vegar eigenda fyrirtækisins að ákveða hvort metin arðsemi Kárahnjúkavirkjunar sé fullnægjandi, að teknu tilliti til þeirrar áhættu sem felist í verkefninu og annarra þeirra þátta sem þeir telji mikilvæga.

Nefndin telur arðsemismat Landsvirkjunar vel rökstutt og að aðferðir, sem fyrirtækið beitir við matið, séu faglegar og í fullu samræmi við það sem almennt er gert við mat á arðsemi fjárfestingarverkefna. Ennfremur telur nefndin að sú aðferð Landsvirkjunar, að nota mat viðurkenndra erlendra sérfræðinga til að spá um þróun álverðs, sé eðlileg.

Niðurstaða arðsemismats Landsvirkjunar var að afkastavextir séu nokkuð umfram veginn fjármagnskostnað og metin arðsemi eigin fjár sé hærri en ávöxtunarkrafa. Kárahnjúkavirkjun sé áhættusamt verkefni í þeim skilningi að nokkrar líkur eru á að arðsemi verði ekki eins mikil og að er stefnt. Líkur eru metnar 21-26% á að afkastavextirnir nái ekki vegnum fjármagnskostnaði, en þegar það gerist reiknast núvirt sjóðstreymi neikvætt.

11% ávöxtunarkrafa á eigið fé
Landsvirkjun miðar við 11% ávöxtunarkröfu á eigið fé í arðsemismati á Kárahnjúkavirkjun. Gert er ráð fyrir að núvirt sjóðstreymi verði jákvætt um 6,6 milljarða króna og að arðsemi eigin fjár verði 1,8 prósentustigi yfir eiginfjárkröfu, þ.e. 12,8%, að gefnum forsendum um stofnkostnað, álverð, orkusölusamning, gengi, rekstrarkostnað, fjármögnun og líftíma virkjunarinnar.

Eigendanefndin, sem skipuð er þremur mönnum, segir að hafa beri í huga að þótt í arðsemismati sé miðað við 25% eiginfjárhlutfall og veginn fjármagnskostnaður reiknaður út frá því, þá megi gera ráð fyrir að Kárahnjúkavirkjun verði í raun fjármögnuð að mestu eða öllu leyti með lánsfé. Þetta þýði að eigið fé Landsvirkjunar verði innan við 20% á fyrstu árunum eftir að framkvæmdum lýkur. Því verði töluvert miklar sveiflur í afkomu fyrirtækisins og bein rekstraráhætta því meiri. Að öðru óbreyttu verði arðsemishlutföll hærri, en arðsemi minni í krónum talið. Í þessu sambandi beri þó að hafa í huga að hluti af arði til eigenda verði tekinn með gjaldi vegna ábyrgðar á lánum Landsvirkjunar.

Þá kemur fram, að eigendur Landsvirkjunar séu í einfaldri ábyrgð vegna lána fyrirtækisins. Það þýði að ef Landsvirkjun geti ekki greitt af lánum sínum þurfi lánveitandi að ganga að eignum fyrirtækisins áður en hann getur krafist greiðslna frá hverjum einum eiganda. Engu að síður sé sýnt að bæði fjármálastofnanir og lánshæfisfyrirtæki telji yfirgnæfandi líkur á að eigendur grípi inn í áður en til slíkra aðgerða kemur. „Telja verður mjög litlar líkur á því að til þessa komi, annars vegar vegna þess að yfirgnæfandi líkur eru metnar á jákvæðri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar og hins vegar vegna þess að fyrirtækið mun tryggja að það hafi yfir nægilegu lausafé að ráða til að mæta sveiflum í afkomu og áföllum á erlendum fjármálamörkuðum," segir í greinargerðinni.

Mesta óvissan um álverð
Í grenargerðinni segir að mikilvægasta forsendan, en jafnframt sú sem mest óvissa ríki um, sé álverðið. Landsvirkjun hafi meðal annars leitað til alþjóðlegra ráðgjafa til að spá fyrir um þróun þess. Spár ráðgjafanna byggjast á ítarlegum upplýsingum um álmarkaðinn og ákveðnum forsendum um þróun hans, m.a. um eftirspurn, framboð og framleiðslukostnað á áli. Engu að síður hafi reynst mjög erfitt að spá fyrir um álverð og á undanförnum árum virðist hafa gætt tilhneigingar til að ofspá fremur en vanspá. Það sé því mikilvægt að taka álspár, einkum til skamms tíma, með fyrirvara. Vinnubrögð Landsvirkjunar í málinu, þ.e.a.s. að nota mat sérfræðinga á þessu sviði en taka síðan tillit til óvissu og sveiflna í áhættumati, séu hins vegar eðlileg.

Fram kemur í greinargerðinni að í fyrirliggjandi samningi um raforkusölu og raforkuverð sé m.a. kveðið á um að Alcoa (Fjarðaál sf.) ábyrgist kaup á 85% af samningsbundinni raforku í 40 ár, sem sé mikilvæg trygging fyrir seljanda orkunnar.

Greinargerð eigendanefndarinnar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert