Nær allt varð eldi að bráð í eldsvoða í fiskverkun í Sandgerði

Slökkvistarf stóð enn yfir í fiskvinnsluhúsinu í morgun.
Slökkvistarf stóð enn yfir í fiskvinnsluhúsinu í morgun. mbl.is/Arnór Ragnarsson

Talið er að tjón sem varð í eldsvoða í fiskverkunarbyggingu við Strandgötu í Sandgerði í nótt nemi tugum milljóna króna ef ekki meira, að sögn Reynis Sveinssonar, slökkviliðsstjóra í Sandgerði. Hann segist telja að 90% hússins séu ónýt. Tveir frystiklefar í byggingu eru hugsanlega heilir, en þakið er ónýtt á þeim báðum. Frystiklefarnir höfðu að geyma eitt þúsund tonn af frystu minkafóðri.

Tilkynnt var um eld í byggingunni laust fyrir klukkan tvö í nótt. Þegar lögregla og slökkvilið komu á staðinn lagði reyk frá þaki byggingarinnar. Skömmu síðar varð vart við mikinn eld í þakinu. Óskað var eftir aðstoð slökkviliðsins á Keflavíkurflugvelli og Brunavarna Suðurnesja. Íbúðarhús á Víkurbraut og verbúð við fiskverkunarbygginguna voru rýmd vegna mikils reyks. Fólkið hélt til í íþróttahúsinu og í fræðasetrinu á meðan mesta slökkvistarfið stóð yfir. Reynir segir að enn sé unnið að því að slökkva glæður í byggingunni, en íbúar á Víkurbraut hafi fengið heimild til þess að snúa heim til sín. Verbúðin næst byggingunni er hins vegar lokuð vegna rafmagnsleysis. Unnið er að því að koma á rafmagni að nýju.

Reynir sagði að enn væru glæður í byggingunni, sem er í eigu Jóns Erlingssonar hf., og unnið væri að því að rífa upp milliþakið til þess að komast að glóðinni. Hann sagði að hluti þaksins hefði hrunið og flest annað væri í skötulíki. Hann sagðist halda að allt að því 90% byggingarinnar væru ónýt. Reynir sagðist halda að byggingin væri tæplega 2.000 fm að stærð. „Þetta er mikið tjón, hleypur á tugum ef ekki hundruðum milljóna króna. Frystiklefarnir eru kannski í lagi, en þakið er ónýtt á þeim báðum. Þeir höfðu að geyma eitt þúsund tonn af frystu minkafóðri. Það er óvíst hve mikið er í lagi en unnið er að því að koma fóðrinu í annan frystiklefa. Það verður flutt til Njarðvíkur." Hann sagði að ekkert lægi fyrir um upptök eldsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert