Íslendingar unnu Færeyinga með marki á lokamínútunni

Íslendingar fagna sigurmarki sínu á síðustu mínútu landsleiksins við Færeyinga.
Íslendingar fagna sigurmarki sínu á síðustu mínútu landsleiksins við Færeyinga. mbl.is/Arnaldur

Leik Íslands og Færeyja, í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu, lauk með 2:1-sigri Íslendinga en Tryggvi Guðmundsson, sem kom inn á sem varamaður fyrir Helga Sigurðsson á 76. mínútu, skoraði sigurmarkið á 90. mínútu leiksins. Markið kom eftir að Þórður Guðjónsson og Eiður Smári Guðjohnsen höfði leikið boltanum á milli sín á hægri kanti og Þórður gaf boltann síðan fyrir markið þar sem Tryggi hamraði hann í netið með föstum skalla. Helgi Sigurðsson skoraði fyrsta mark leiksins á 50. mínútu eftir aukaspyrnu sem Eiður Smári tók og skaut í þverslá en Rógvi Jacobsen, leikmaður Færeyinga, jafnaði metin á 57. mínútu leiksins, einnig eftir aukaspyrnu.

Ásgeir Sigurvinsson, sem stjórnaði íslenska liðinu, sagði í viðtali við Sjónvarpið að hann væri ánægður með leikinn. Útlitið hefði þó lengi ekki verið nægilega gott en það hefði verið frábært að skora sigurmarkið svona seint. Ásgeir sagði að liðið hefði leikið fyrri hálfleikinn eins og upp var lagt og notað kantana vel. Það hefði komið nokkuð á liðið þegar Færeyingar skoruðu markið, sem hefði í raun átt að vera hægt að koma í veg fyrir þar sem Íslendingar ættu sterkari skallamenn en Færeyingar. Færeyingar væru hins vegar seigir en íslenska liðið hefðu spilað vel, verið vel stemmt og liðsheildin verið sterk og vörnin virkaði vel og Færeyingar hefðu varla fengið færi í leiknum.

Skotar og Þjóðverjar, sem eru í sama riðli og Íslendingar og Færeyingar, gerðu 1:1 jafntefli í dag. Staðan í riðlinum er þá þessi:

  1. Þýskaland 8 stig úr 4 leikjum
  2. Skotland 8 stig úr 5 leikjum
  3. Litháen 7 stig úr 5 leikjum
  4. Ísland 6 stig úr 4 leikjum
  5. Færeyjar 1 stig úr 4 leikjum

Íslendingar leika við Litháa á miðvikudag.

Heimasíða Knattspyrnusambands Evrópu

Eiður Smári í kröppum dansi á Laugardalsvelli.
Eiður Smári í kröppum dansi á Laugardalsvelli. mbl.is/Arnaldur
Íslendingar báru sigurorð af Færeyingum á Laugardalsvelli í dag.
Íslendingar báru sigurorð af Færeyingum á Laugardalsvelli í dag. mbl.is/Arnaldur
Þórður Guðjónsson í baráttu við færeyskan leikmann.
Þórður Guðjónsson í baráttu við færeyskan leikmann. mbl.is/Arnaldur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert