Flugvélin kyrrsett og flugmennirnir bíða rannsóknar

Flugvélin, sem kom of lágt inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli.
Flugvélin, sem kom of lágt inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Júlíus

Flugmálastjórn Íslands hefur kyrrsett ferjuflugvél af gerðinni Twin Comanche sem gerði í gærkvöldi misheppnað aðflug að Reykjavíkurflugvelli og hafa flugmenn hennar fallist á að vera hér um kyrrt meðan málið er rannsakað, að sögn Heimis Más Péturssonar, uppblýsingafulltrúa Flugmálastjórnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Flugmálastjórn voru málavextir með þeim hætti að ekki var talin ástæða til þess að tilkynna Rannsóknarnefnd flugslysa (RNF) um atvikið með því að hringja í neyðarsíma nefndarinnar.

Í framhaldi af kvörtun RNF um að hún hafi ekki verið látin vita strax af atvikinu hefur flugmálastjóri nú hins vegar áréttað við flugstjórn að öll atvik verði tilkynnt símleiðis til RNF eins fljótt og verða má.

„Rannsóknarnefnd flugslysa var tilkynnt um atvikið með rafpósti klukkan 20:03. Verklagsreglur segja að tilkynna beri RNF um flugstjórnaratvik. Þar sem flugvélin lenti heilu að höldnu klukkan 19:32 og tryggt hafði verið að öll gögn varðandi flugið væru til staðar og flugmennirnir kyrrsettir, var ekki talin ástæða til að tilkynna það einnig þegar í stað með því að hringja í neyðarsíma nefndarinnar. Flugmálastjóri hefur áréttað við flugstjórn að öll atvik verði tilkynnt símleiðis til RNF eins fljótt og verða má," segir í upplýsingum frá Fllugmálastjórn.

Flugvélin kom niður úr skýjum í u.þ.b. 300 feta hæð yfir Þingholtunum að því að talið er og töluvert austar en aðflugsferill hennar átti að vera að norður-suður flugbraut flugvallarins.

Flugmálastjórn gerði þegar ráðstafanir til að afrit yrði tekið af ratsjárgögnum og aðflugstæki á flugbrautinni prófuð. Þau reyndust öll vera rétt stillt. Þá óskaði Flugmálastjórn eftir því að lögreglan tæki skýrslu af flugmönnunum. Rannsóknarnefnd flugslysa hefur tekið við rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert