Níu þúsund gestir í Hallgrímskirkju á aðventunni

Hallgrímskirkja í vetrarbúningi.
Hallgrímskirkja í vetrarbúningi. mbl.is/Ómar

Það stefnir í það að um níu þúsund manns komi í athafnir, tónleika og aðrar uppákomur í Hallgrímskirkju í Reykjavík fyrstu þrjár vikur aðventunnar. Flestir hafa mætt á tónleikana í kirkjunni, eða rúmlega 7.500 manns.

Ingólfur Hartvigsson, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju, segir á heimasíðu Þjóðkirkjunnar að í aðventumessur hafi mætt í kringum 960 manns í hverja messu. Á fyrirbænaguðþjónustur hafa mætt 60 manns, morgunmessur 45 manns og kyrrðarstundir hafa mætt 120 manns. Á tónleika Mótettukórsins mættu 2.500 manns. Á tónleika Schola cantorum á fyrsta sunnudegi aðventunnar voru 250 manns. Tónleikar Karlakórs Reykjavíkur drógu að 2.000 manns og á tónleika Vox feminae mættu 1.600 manns.

Þá hefur fjöldinn allur af grunn- og leikskólabörnum komið í heimsókn og verða þau orðin í lok vikunnar um 950 talsins, auk barna og unglinga í hefðbundnu starfi kirkjunnar sem ekki eru talin með.

Það má gera ráð fyrir að enn fleiri hafi komið í Hallgrímskirkju það sem af er aðventu því ótalið eru þeir sem hafa komið í öldrunar- fræðslu og kórastarf, auk hópa sem komið hafa á eigin vegum. Loks má geta þess að fjölmargir heimsækja Hallgrímskirkju á hverjum degi. Og þá er ótalinn allur sá fjöldi sem sækir kirkjuna í kringum hátíðarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert