Vilja afnema einkasölu ÁTVR á léttu áfengi og lækka áfengisgjald

Tólf þingmenn úr þremur flokkum hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir því að einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með annað áfengi en sterkt áfengi verði aflögð en miðað er í frumvarpinu við að að sterkt áfengi hafi meiri vínandastyrk en 22%. Þá segjast flutningsmenn frumvarpsins jafnframt telja, að taka þurfi til skoðunar áfengisgjald sem lagt er á allt áfengi, til dæmis með því að lækka áfengisgjald í þremur áföngum, um allt að 50%, fram til ársins 2007.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður og meðflutningsmenn hans koma úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að á undanförnum árum og áratugum hafi hið opinbera dregið sig út úr atvinnurekstri á mörgum sviðum þar sem talið sé að einstaklingar og fyrirtæki geti stundað viðkomandi starfsemi betur eða í það minnsta ekki verr. Nú sé svo komið að til algerra undantekninga heyrir ef ríki eða sveitarfélög standa í verslunarrekstri. Ein þeirra undantekninga sé sala á áfengum drykkjum til einstaklinga en Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafi enn sem komið er einkaleyfi á því að selja almenningi áfengi í smásöluverslun auk heildsöludreifingar á tóbaki og tóbaksgerðar.

Lagt er til að aðrir en ríkið fái að sjá um smásölu léttvíns og bjórs eins og á öðrum sviðum en í frumvarpinu segir, að ekki sé um að ræða breytingu á áfengisstefnu, áherslum í tóbaksvörnum eða tekjuöflunarkerfi ríkisins á þessu sviði. Þó er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sjái eitt um sölu sterks áfengis en verði áfram heimilt að dreifa öllu áfengi í heildsölu og smásölu.

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert