Moore efast um að Bush viti af gullpálmanum

Michael Moore hlaut Gullpálmann í Cannes í kvöld.
Michael Moore hlaut Gullpálmann í Cannes í kvöld. AP

„Sannleikurinn er kominn út úr skápnum,” sagði Michael Moore er hann tók við gullpálmanum fyrir heimildarmynd sína Fahrenheit 9/11 á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Frakklandi í kvöld. Hann tileinkaði myndina dóttur sinni, hinni 22 ára gömlu Nathalie Rose, sem hann sagði að hefði verið að útskrifast úr háskóla með meistaragráðu í kvennasögu. Moore vitnaði svo í „mikinn repúblíkana” sem eitt sinn hefði sagt að sannleikurinn væri mikilvægasta vopn lýðræðisríkisins. „Það var Abraham Lincoln, sem var öðruvísi repúblikani.”

Fahrenheit 9/11 er fyrsta heimildarmyndin sem vinnur gullpálmann síðan Jacques Cousteau fékk þau árið 1956 fyrir Þögla veröld. Í heimildarmynd Moore er George W. Bush, Bandaríkjaforseti, og gagnrýndur fyrir embættisstörf síðan hann tók við völdum í Hvíta húsinu. Í myndinni koma fram alvarlegar ásakanir á hendur Bush og samstarfsmanna hans í Hvíta húsinu um að þeir séu vísvitandi og margítrekað búnir að blekkja þjóð sína. Alvarlegasta blekkingin sé að hafa sent þjóðina í stríð til Íraks, sem væri stríð byggt á lygum um að Írak ógnaði öryggi bandarísku þjóðarinnar með gjöreyðingarvopnum, sem síðan væru ekki til.

„Hvað hafið þið gert?"

Sigurvegarar í Cannes voru valdir af níu manna dómnefnd sem leidd var af bandaríska kvikmyndaleikstjóranum Quentin Tarantino en auk hans voru í dómnefndinni landar hans Kathleen Turner leikkona, Edwidge Danticat rithöfundur og Jerry Schatzberg leikstjóri. Michael Moore var greinilega undrandi yfir því að hafa hlotið náð fyrir auga dómnefndar og sagði örvinglaður er hann steig á sviðið við standandi lófatak og húrrahróp gesta í Lumére-kvikmyndahúsinu í Hátíðarhöllinni þar sem verðlaunaafhendingin fór fram fyrir stundu. „Hvað hafið þið gert?” sagði Moore þakkaði dómnefndinni fyrir sig. „Þú gerðir þetta bara til að rugla í hausnum á mér,” sagði Moore og horfi á landa sinn Tarantino, dómnefndarformann, sem hló bara og sló sér á lær.

Flestir verðlaunahafar lýstu yfir ánægju sinni með þessa niðurstöðu dómnefndarinnar og sáu ástæðu til að tjá sig sérstaklega um mikilvægi þess að sannleikurinn sem Moore legði fram í Fahrenheit 9/11 kæmi fram. „Ekki kjósa Bush!” sagði t.d. hinn 21 árs gamli Jonas Geirnaert er hann tók við dómnefndarverðlaunum fyrir stuttmyndina Flatlife. „Ég bara varð að segja þetta,” sagði Geirnaert að lokinni verðlaunaafhendingu við blaðamenn. „Ef ske kynni að Michael Moore myndi ekki vinna. En ég er svo glaður að hann hafi gert það og fái nú enn tækifæri til að ávarpa ykkur og lýsa yfir þessum mikilvægu sjónarmiðum sem hann er að reyna að koma á framfæri í myndinni.”

Orðinn leiður á framferði Bandaríkjamanna gagnvart Frökkum

Moore hefur sjálfur lýst því yfir að myndin sé að hluta til hans framlag til kosningabaráttunnar en forsetakosningar fara fram í Bandaríkjunum 2. nóvember nk. og í myndinni ákallar hann þjóð sína óbeint að hugsa sig alvarlega um áður en hún kýs Bush aftur sig. Sjálfur hefur Moore opinberlega stutt frambjóðanda demókrata, Johnn Kerry, þótt Moore sé ekki sjálfur demókrati.

„Ég hef alla trú á að Fox og aðrar stórar stöðvar eigi eftir að undirstrika að þessi verðlaun séu frönsk og því ekkert að marka þau. Hinir fjölmiðlarnir segja sannleikann, sem er sá að dómnefndin réði valinu og þessi dómnefnd var skipuðu fjórum Bandaríkjamönnum og öðrum sem eiga víst að tilheyra bandalagi viljugra þjóða. Þetta eru ekki frönsk verðlaun. Þetta eru stærstu alþjóðlegu verðlaun í kvikmyndaheiminum. Þetta vil ég heyra mig segja í fréttum á Fox,” sagði Moore og glotti. Moore segist búinn að fá sig fullsaddan af af því hvernig landar hans komi fram við frönsku þjóðina, eftir að Frakkar ákváðu að styðja ekki innrásina í Írak. „Frakkar eru vinir okkar. Ef það væri ekki fyrir Frakka þá væru Bandaríkin hugsanlega ekki til. Þjóð mín verður að fara gera sér grein fyrir því að þið eruð bandamenn, hafið alltaf verið og viljið okkur vel. Eina sem Frakkar voru að gera var að reyna að koma vitinu fyrir ráðamenn okkar. Ég er hundleiður á Jay Leno og öðrum löndum mínum sem hamast við að gera lítið úr Frökkum.”

Moore segir Bandaríkin bera ábyrgð á því óstöðuga ástandi sem er í heiminum í dag og að það sé á valdi bandarísku þjóðarinnar að bæta fyrir það í næstu kosningum. „Tarantino hvíslaði að mér að pólitíkin í myndinni hefði ekkert haft að gera með það að hún sigraði. Hann sagði við mig: „Þetta ekki pólitísk dómnefnd. Myndin sigraði vegna þess að okkur þótti hún mikilvægt kvikmyndaverk.” Þessi orð hans skiptu öllu fyrir mig.”

Moore tók undir með Tarantino á fundi með blaðamönnum eftir verðlaunaafhendinguna: „Ég verð að ítreka að ég gerði þetta fyrst og síðast sem bíómynd, afþreyingarmynd. Það kemur alltaf á undan pólitíkinni og áróðurstilgangi. Ef ég næ til áhorfenda og læt eitthvað gott af mér leiða þá er það bónus fyrir mig og alveg frábært. Bíómyndir sem gerðar eru eingöngu af pólitískum ástæðum virka aldrei.”

Efast um að Bush þekki kvikmyndahátíðina í Cannes

Heimildarmyndir njóta sífellt meiri virðingar og athygli í kvikmyndaheiminum og eru nú farnar að vinna til stórra verðlauna eins og gullpálmans. Moore segir að það hafi sýnt sig á bóksölu þar sem fræðirit njóti sífellt meiri vinsælda, sem væri merki um að fólkið væri orðið þyrstara í upplýsingar. Aðspurður hver hann héldi að viðbrögð Bush forseta yrðu við því að þessi mynd væri búinn að fá Gullpálmann svaraði hann: „Veit hann yfir höfuð hvað þetta er?” og benti á verðlaunagripinn sem hann hafði í svartri öskju við hlið sér. “Hvað skyldi hann vera að gera núna, miðdegis í Bandaríkjunum. Hann er örugglega ekki í Hvíta húsinu, svo mikið er víst. Ætli hann sé ekki í Camp David að kafna á saltkringlu – ég vona allavega að enginn færi honum fréttirnar á meðan hann er að borða saltkringlur. Hann er örugglega voðalega stoltur af því að Bandaríkjamaður var að vinna þessi alþjóðlegu kvikmyndaverðlaun,” sagði Moore kaldhæðinni röddu.

Kóreska myndin Öldungur (Old Boy) eftir Park Chan-wook fékk Grand Prix, sem segja má að séu önnur verðlaun í keppninni, silfurpálminn. Þessi blóðuga og ofurstílfærða hefndarsaga, sem byggir á japanskri manga-myndasögu, hefur slegið í gegn í heimalandinu og sló m.a. við Kill Bill þegar hún var frumsýnd þar í landi. Myndin var ein sú umtalaðasta á hátíðinni og Tarantino dómnefndarformaður er sagður hafa barist mjög fyrir að myndin fengi einhver verðlaun. Í stuttu máli fjallar Öldungur um mann sem tekinn er með valdi og settur í einangrun í 15 ár án þess að hafa hugmynd um hvað hann gerði af sér. Eftir tvo mánuði í einangrun sér hann í sjónvarpsfréttum að konan hans hefur verið myrt og honum kennt um. Eftir því sem árin í einangrun líða fyllist hann æ meiri hefndarþorsta og er staðráðinn í að hafa upp á þeim sem léku hann svo illa.

Kínverska leikkonan Maggie Cheung var valin besta leikkonan fyrir túlkun sína á ungri ekkju sem reynir að losa sig við eiturlyfjafíkn sína til að geta fengið dóttur sína aftur í myndinni Clean. Nick Nolte leikur föður hennar sem hefur forræði yfir barnabarni sínu en myndin var gerð af franska kvikmyndagerðarmanninum Olivier Assayas. Cheung hefur lítið leikið dramatísk hlutverk áður en hún er kunn fyrir að hafa verið í Hong Kong-hasarmyndum.

Besti leikarinn var valinn hinn 14 ára gamall japanskur drengur sem heitir Yagira Yuya fyrir leik hans í myndinni Engin veit (Daremo Shiranai) eftir Kore-eda Hirokazu. Í myndinni leikur Yagira 12 ára gamlan dreng sem þarf að hugsa um þrjú yngri systkini eftir að móðir þeirra yfirgefur þau. Yagira var ekki á staðnum til að taka við verðlaunum, leikstjórinn Kore-eda sagði hann hafa þurft að fljúga heim til Japan því hann væri í prófum í skóla sínum.

Þá hlaut bandaríska leikkonan Irma P. Hall sérstök leikaraverðlaun dómnefndar fyrir snilldarframmistöðu sína sem öldruð suðurríkjafrú sem hleypir Tom Hanks og öðrum ribböldum inn á heimili sitt í mynd Coen-bræðra The Ladykillers. Sérstök dómnefndarverðlaun voru veitt fyrstu taílensku myndinni sem tekið hefur þátt í keppninni um gullpálmann, Regnskógarharmleikur (Sud Pralad), sem er eftir hinn unga Apichatpong Weerasethakul. Myndin þykir líkt og fyrri myndir Weerasethakul einkar sérstök og fer ótroðnar slóðir og vegna þess hefur Weerasethakul átt fremur erfitt uppdráttar í heimalandi sínu. Hann sagði blaðamönnum að hann vonaði að þessi verðlaun myndu greiða leið hans betur og opna augu taílensku þjóðarinnar fyrir því sem hann væri að gera.

Lista yfir alla verðlaunahafa á Cannes-hátíðinni 2004 er að finna á Festival-cannes.fr.

skarpi@mbl.is

Kóreska myndin Öldungur (Old Boy) eftir Park Chan-wook fékk Grand …
Kóreska myndin Öldungur (Old Boy) eftir Park Chan-wook fékk Grand Prix verðlaunin í Cannes. AP
Kínverska leikkonan Maggie Cheung fékk einnig verðlaun í Cannes.
Kínverska leikkonan Maggie Cheung fékk einnig verðlaun í Cannes. AP
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes