Málverkinu Ópinu rænt úr Munch-safninu í Ósló

Lögregla utan við Munch safnið í Ósló í morgun.
Lögregla utan við Munch safnið í Ósló í morgun. AP

Málverkinu Ópinu, eftir norska málarann Edvard Munch, var rænt úr Munch-safninu í Ósló í morgun. Tveir vopnaðir og grímuklæddir menn ruddust inn í safnið í morgun og höfðu málverkið, og annað málverk sem nefnist Madonna, á brott með sér. Ræningjarnir flúðu í Audi A6, að sögn fréttavefjar Aftenposten. Leitar lögreglan nú ræningjanna um alla Óslóborg.

Margir urðu vitni að ráninu og fengu sumir þeirra taugaáfall. Að sögn starfsmanna í kaffiteríu safnsins sáu þeir tvo grímuklædda menn koma með málverkin á milli sín. Annar ræninginn miðaði byssu á starfsmennina.

Franskur útvarpsmaður, Francois Castang að nafni, sagðist hafa verið í safninu þegar ræningjarnir ruddust þar inn og höfðu málverkin á brott með sér. Sagði Castang við franska útvarpsstöð, að það hefði verið sérkennilegt að málverkin virtust ekki hafa verið varin á neinn hátt og ekki tengd við þjófavarnakerfi. Málverkin hefðu aðeins verið hengd með vír á vegginn og nægt hefði að kippa í málverkin til að losa þau. Sagðist Castang hafa séð annan ræningjann gera það.

Lögreglan fékk skömmu eftir ránið tilkynningu um að sést hefði til Audu A6 bíls við Carl Berners torg í Ósló. Þegar lögregla kom á staðinn fann hún brotna málverkaramma og gler.

Munch málaði Ópið árið 1893 í fjórum mismunandi útfærslum. Tvö verkanna hafa verið geymd í Munch-safninu, eitt er í norska ríkislistasafninu og eitt er í einkaeign. Ópinu, sem er á norska ríkislistasafninu, var rænt fyrir áratug en það fannst þremur mánuðum síðar á hóteli í Asgardstrand, um 65 km suður af Ósló. Þrír Norðmenn voru handteknir í tengslum við það mál og sagði lögregla að þeir hefðu áður reynt að krefjast 1 milljónar dala lausnargjalds fyrir málverkið.

Munch málaði Ópið árið 1893 og Madonnu á árunum 1893-1894. Ópið er eitt þekktasta málverk sem málað hefur verið í anda expressionismans. Erfitt er að leggja mat á verðgildi málverkanna tveggja, en talið er að Ópið gæti verið 2,5-3 milljarða íslenskra króna virði og Madonna um 1,5 milljarða virði.

Ópið, eftir Edvard Munch.
Ópið, eftir Edvard Munch.
Starfsmenn Christie's uppboðshússins með málverkið Madonnu eftir Munch árið 1999.
Starfsmenn Christie's uppboðshússins með málverkið Madonnu eftir Munch árið 1999. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert