Lýsisleki stöðvar farþegaþotu

Þota Icelandair, sem fara átti frá London um hádegi á miðvikudag, tafðist um níu klukkustundir eftir að hlaðmaður, sem var að afferma vélina, taldi sig hafa brennst á höndum við að handfjatla hættulegt efni sem lekið hafði úr farmi vélarinnar.

Mikill viðbúnaður var þegar settur í gang á Heathrow-flugvelli, flugvélin einangruð og eiturefnasérfræðingar slökkviliðs flugvallarins kallaðir til, segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Þegar ljóst var að tafir yrðu á fluginu var ný áhöfn og flugvirki send frá Íslandi, og þegar íslenski flugvirkinn leit inn í vélina staðfesti hann endanlega grun heimamanna. Efnið hættulega sem hafði stöðvað vélina í margar klukkustundir reyndist vera þorskalýsi sem lekið hafði úr kassa sem verið var að flytja til London. Ekki reyndist um mikinn leka að ræða.

Ekki meint af lýsinu
Guðjón segir að hlaðmaðurinn, sem uppgvötvaði lekann, hafi talið sig hafa brunnið á höndunum við að komast í snertingu við efnið, og því verið sendur beint til læknis. Honum varð þó ekki meint af því að handfjatla þorskalýsið og gat snúið aftur til vinnu eftir læknisskoðunina.

Um 170 farþegar þurftu að bíða á flugvellinum á meðan meint eiturefni voru skoðuð, og komust þeir ekki til Íslands fyrr en um miðnætti. Guðjón segir mikið af þessu fólki hafa verið á leið vestur um haf til Bandaríkjanna, og hafi það þurft að gista hér á landi eina nótt þar sem það missti af tengifluginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert