Hugsanlegt að um 1.000 manns séu í haldi ræningja í skóla í Ossetíu

Rússneskur hermaður ber ungabarn frá skólabyggingunni í gær, þegar hópi …
Rússneskur hermaður ber ungabarn frá skólabyggingunni í gær, þegar hópi fólks var leyft að yfirgefa hana. AP

Hugsanlegt er að vopnaður hópur sem réðist inn í skóla í sjálfsstjórnarlýðveldinu Norður-Ossetíu í fyrradag, hafi um 1.000 börn, kennara og foreldra í gíslingu, en ekki um 350 eins og áður hafði verið greint frá. Rússneskir embættismenn sögðu á miðvikudag að um 350 manns væru í haldi í skólanum, sem er í borginni Beslan. Ræningjarnir krefjast sjálfstæðis Tétsníu.

Kennari, sem var í hópi 26 kvenna og barna sem leyft var að yfirgefa bygginguna í gær, dró þessa tölu í efa, að því er greint er frá í fréttum í dag.

„Í sjónvarpinu var sagt að við værum 350. Það er ekki rétt. Það eru ekki færri en 1.500 manns í skólanum,“ hafði virt blað að nafni Izvestia eftir konunni, sem ekki vildi koma fram undir nafni.

Að auki sagði Azamat Kadykov, þingmaður í Norður-Ossetíu, sem fundaði með áhyggjufullum ættingjum í dag að gíslarnir væru um 1.000 talsins.

Fréttirnar hafa ekki fengist staðfestar en konan sem ræddi við Izvestia sagði að um 1.000 börn væru nemendur í skólanum og uppreisnarmenn hefðu einnig tekið fjölda kennara og foreldra í gíslingu.

Í gærkvöldi hentu uppreisnarmennirnir tveimur handsprengjum út um glugga á byggingunni, en önnur sprenging heyrðist þar í morgun meðan Kadykov og barnalæknirinn Leonid Roshal, sem hefur tekið þátt í samningaviðræðunum, ræddu við fólk við bygginguna. Roshal sagði foreldrum að öll börn í byggingunni væru á lífi.

Krefjast sjálfstæðis Tétsníu

Skæruliðarnir sem halda fólkinu í gíslingu í skólanum hafa krafist þess að Tétsnía verði sjálfstætt ríki, að því er Alexander Dzasokóf, forseti Norður-Ossetíu greindi frá í dag. Sagði hann að fólkið hefði gert Ruslan Ausjef, sem er mikils metinn stjórnmálamaður á svæðinu og stjórnaði samningaviðræðum við gíslana í gær, þetta ljóst.

Lýsti hann því jafnframt yfir fyrir hönd stjórnvalda, að þau teldu nú að meira en 500 manns væri haldið í skólabyggingunni.

Sagði forsetinn jafnframt að yfirvöld væru ekki að íhuga, eins og mál stæðu, að beita afli gegn uppreisnarhópnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert