Ekki talin hætta á aurskriðum við þéttbýli í Ólafsfirði

Mikill vatnsflaumur er í Ólafsfirði eftir miklar rigningar í bænum …
Mikill vatnsflaumur er í Ólafsfirði eftir miklar rigningar í bænum í nótt og í dag. mbl.is/Kamilla Mjöll Haraldsdóttir

Almannavarnarnefnd Ólafsfjarðar kom saman til fundar kl. 13 í dag til þess að meta hættu á aurskriðum við þéttbýli í Ólafsfirði vegna vatnsveðurs sem gengið hefur yfir bæinn frá því í nótt. Nefndin telur ekki hættu á aurskriðum úr Tindaöxl fyrir ofan bæinn, að því er segir í tilkynningu nefndarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands hefur dregið nokkuð úr rigningunni, en einhverri úrkomu er þó spáð áfram í bænum í kvöld og í nótt.

Fram kemur í tilkynningu Almannavarnarnefndarinnar að hún telji hættu á aurskriðum úr Ósbrekkufjalli og Kleifarhorni, en vegurinn fram að Kleifum hefur þegar lokast. Vegna vatnavaxta er vegurinn vestan Ólafsfjarðarbrúar og meðfram vatninu varhugaverður og fólk beðið að fara varlega, að því er segir í tilkynningu nefndarinnar.

Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að einhver úrkoma verði líklega í Ólafsfirði í nótt. Á morgun sé hins vegar gert ráð fyrir úrkomu með köflum á þessum slóðum.

Óskar Gunnarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni segir að vegurinn milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, sem lokaðist í nótt eftir að a.m.k. sjö skriður féllu á hann, verði trúlega ekki opnaður fyrr en í fyrramálið. „Þarna eru bæði rigningar, áframhaldandi skriður og vatnsflaumur að aukast,“ segir Óskar og bætir við að ákveðið hafi verið að vegurinn verði ekki opnaður í nótt. „Skemmdir í Ólafsfjarðarmúla eru feykilegar,“ segir Óskar. Hann segir að eins og er sé fært um Lágheiði, en þar séu vatnavextir einnig miklir.

Kristinn Gíslason, verkstjóri hjá Ólafsfjarðarbæ, segir að aðeins hafi sjatnað í vatnsmagninu í miðbænum, en skriða hafi farið yfir skotsvæði bæjarins og golfvöllinn í bænum. Þá hafi íbúar um 20 húsa unnið við að dæla vatni úr húsum sínum. Hann segir daginn hafa verið annasaman hjá starfsmönnum Ólafsfjarðarbæjar og að vinnu vegna veðursins verði haldið áfram fram á kvöld.

Tjörn í miðju Ólafsfjarðar breyttist í stórt vatn í dag.
Tjörn í miðju Ólafsfjarðar breyttist í stórt vatn í dag. mbl.is/Kamilla
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert