Fundi lokið í kennaradeilu: Viðræðum haldið áfram á morgun

Verkfall kennara hefur staðið frá 20. september
Verkfall kennara hefur staðið frá 20. september mbl.is/Sverrir

Fundi Launanefndar sveitarfélaganna og samninganefndar Kennarasambands Íslands (KÍ), vegna verkfalls grunnskólakennara, lauk nú fyrir stundu. Þessar upplýsingar fengust hjá ríkissáttasemjara. Birgir Björn Sigurjónsson, formaður Launanefndar sveitarfélaganna, sagði eftir fund dagsins, að menn vildu ekkert segja eftir fundinn, annað en að til stæði að hittast að nýju á morgun til nánari viðræðna.

Eiríkur Jónsson, formaður samninganefndar KÍ, sagði einnig að ekkert nýtt lægi fyrir í málinu eftir fund dagsins, staðan væri í raun óbreytt frá því í gær. Til stæði að hittast á ný á morgun klukkan 13.

Fundur samninganefnda í kennaradeilunni hófst klukkan 15.30 í dag, en tveir fulltrúar beggja samningsaðila hittust hjá ríkissáttasemjara klukkan 13:00 í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert