Ísland í hópi óspilltustu ríkja heims

mbl.is/Kristinn

Ísland er í 3.-4. sæti á nýjum lista stofnunarinnar Transparency International þar sem ríkjum er raðað eftir því hvort spilling sé talin þrífast innan þeirra eða ekki. Í fyrra taldi stofnunin Ísland vera næst óspilltasta ríki á eftir Finnlandi en nú er Nýja-Sjáland í 2. sæti og Danmörk er jöfn Íslandi.

Í næstu sætum koma Singapúr, Svíþjóð, Sviss, Noregur, Ástralía og Holland. Stofnunin telur hins vegar að spilltustu ríki heims séu Bangladesh, Haítí, Nígería, Myanmar, Aserbaijan, Paragvæ og Chad.

Stofnunin áætlar að milljarðar dala séu greiddir í mútur á hverju ári. Olíuauður sé oft gróðrarstía spillingar og segir að þetta sé áberandi í Angóla, Aserbaijan, Chad, Ekvador, Indónesíu, Íran, Írak, Kasakstan, Líbýu, Nígeríu, Rússlandi, Venesúela og Jemen, en öll þessi ríki eru neðarlega á lista Transparency International. Á fréttavef BBC er haft eftir Peter Eigan, forstjóra stofnunarinnar, að í þessum ríkjum hverfi stór hluti af tekjum af olíuvinnslu í vasa stjórnenda vestrænna olíufyrirtækja, milliliða og embættismanna heima fyrir.

Á lista stofnunarinnar í ár eru 146 ríki og byggir listinn á 18 könnunum sem gerðar hafa verið frá árinu 2002 á vegum á annars tugar óháðra hópa.

Spillingarvísitala Transparency International

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert