Bosníu-Serbar biðjast í fyrsta sinn afsökunar á morðum á þúsundum múslíma

Serbnesk yfirvöld í Bosníu báðust í dag í fyrsta sinn opinberlega afsökunar á morðum á um átta þúsund múslímum sem serbneskar hersveitir myrtu í Srebrenica 1995, en fjöldamorðin þar eru þau mestu sem framin hafa verið í Evrópu síðan í seinni heimsstyrjöld.

„Ríkisstjórn Republika Srpska vottar ættingjum fórnarlambanna í Srebrenica samúð sína og biðst innilega afsökunar á hörmungum sem þeir hafa mátt þola,“ sagði m.a. í yfirlýsingu frá ríkisstjórninni.

Í síðasta mánuði samþykktu serbnesk yfirvöld í Bosníu skýrslu sem sérstök rannsóknarnefnd skipuð heimamönnum gerði um atburðina í Srebrenica, og var niðurstaðan sú að þar hefðu hátt í átta þúsund múslímir verið myrtir undir lok Bosníustríðsins sem stóð 1992-95.

Þetta var í fyrsta sinn sem serbnesk yfirvöld í Bosníu viðurkenndu umfang fjöldamorðanna.

Republika Srpska er serbneski hluti Bosníu, en einnig er þar sambandsríki króatískra múslíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert