Fréttamenn senda Alþingi ákall

Auðun Georg Ólafsson kom til vinnu í Útvarpshúsinu í morgun.
Auðun Georg Ólafsson kom til vinnu í Útvarpshúsinu í morgun. mbl.is/Árni Torfason

Jón Gunnar Grjétarsson, formaður Félags fréttamanna, afhenti í morgun Halldóri Blöndal, forseta Alþingis, ákall frá fréttamönnum Ríkisútvarpsins. Þar kemur m.a. fram, að Auðun Georg Ólafsson, nýráðinn fréttastjóri Útvarpsins, hafi sagt fréttamönnum í morgun, að hann hefði haft samband við nokkra menn og beðið þá að vera til taks ef núverandi fréttamenn legðu niður störf.

Halldór sagði, þegar hann tók við ákallinu, að hann myndi koma því á lestarsal Alþingis.

Ákallið er eftirfarandi:

    Auðun Georg Ólafsson, nýráðinn fréttastjóri fréttastofu Útvarps, kom til starfa í morgun og hélt stuttan fund með fréttamönnum. Þar kom fram hjá honum, að hann ætlaði að gera vel við þá sem vildu starfa með honum en sagðist skilja og virða þá ákvörðun þeirra sem vildu það ekki og hættu störfum. Jafnframt greindi hann frá því, að hann hefði haft samband við nokkra menn og beðið þá að vera til taks ef núverandi fréttamenn legðu niður störf.

    Þetta eru beinar hótanir af hálfu hins nýja fréttastjóra. Hans stefna er augljóslega að deila og drottna. Það á greinilega að kaupa menn til samstarfs en losa sig við þá sem ekki fylgja nýjum siðum. Við teljum þessar stjórnunaraðferðir í hrópandi ósamræmi við uppbyggingu opinberrar þjónustu í lýðfrjálsu landi. Ríkisútvarpið er þjónustustofnun í almannaþágu og verður að vinna í þeim anda.

    Neyðarástand er að skapast á Ríkisútvarpinu. Fjölmennur fundur starfsmanna samþykkti í gær vantraust á útvarpsstjóra vegna ráðningar Auðuns Georgs Ólafssonar, með 93% greiddra atkvæða. Útvarpsstjóri er ekki fær um að leysa þann vanda sem uppi er.

    Við heitum á alþingismenn að standa vörð um Ríkisútvarpið sem þjónað hefur þjóðinni í nær sjötíu og fimm ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert