Norðmenn hætta að fjárfesta í vopnafyrirtækjum af siðferðislegum ástæðum

Norsk yfirvöld greindu frá því í dag að þau hefðu dregið til baka fjárfestingar sínar í átta alþjóðlegum fyrirtækjum af siðferðislegum ástæðum, en fyrirtækin tengist öll framleiðslu sérlega skaðlegra vopna, svo sem jarðsprengjum og klasasprengjum.

Olíusjóður Norðmanna, sem sér um og fjárfestir fyrir megnið af tekjum Norðmanna af olíusölu, hefur dregið til baka fjárfestingar sem hljóða upp á um 2,2 milljarða norskra króna, jafnvirði 21,7 milljarða íslenskra króna, úr fyrirtækjunum. Um er að ræða Thales, Evrópsku flug- og geimvarnarstofnunina og EADS Finance, sem tengist því fyrirtæki, auk Alliant Techsystems, General Dynamics, L3 Communications Holdings, Lockheed Martin og Raytheon, að því er norska fjármálaráðuneytið hefur tilkynnt.

Norðmenn eru þriðju stærstu olíuútflytjendur heims, á eftir Sádi-Arabíu og Rússlandi. Þeir hafa nú ákveðið að tekjurnar af olíuútflutningnum megi aðeins nýta til fjárfestingar í fyrirtækjum sem standast siðferðiskröfur ríkisstjórnar landsins.

Í viðmiðum sem norsk yfirvöld hafa sett kemur fram að fjárfestingar í fyrirtækjum sem framleiða ákveðnar tegundir vopna séu bannaðar. Þetta á til dæmis við um fjárfestingar í fyrirtækjum sem framleiða efna-, sýkla-, og kjarnorkuvopn auk fyrirtækja sem framleiða jarðsprengjur sem ætlað er að skaða hermenn og klasasprengjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert