Segir ríkisstjórnina hafa veitt formlegt leyfi til millilendinga

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að bandarísk stjórnvöld hafi formlegt leyfi íslenskra stjórnvalda til að fljúga með meinta hermdarverkamenn í haldi um Ísland. Þetta megi lesa út úr yfirlýsingu Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra, frá 18. mars 2003, sem birt var á vef Hvíta Hússins en þetta er að finna í pistli sem Össur skrifar á vefsíðu sinni.

„Í yfirlýsingunni eru engin skilyrði sett. Enginn ætlar þó að íslensk stjórnvöld hafi fremur en aðrir gert sér í hugarlund að heimildin yrði hugsanlega nýtt til að flytja um Ísland fanga á leið í leynileg fangelsi þar sem pyndingum yrði hugsanlega beitt við yfirheyrslur - og íslensk stjórnvöld þannig gerð samsek um brot bæði á íslenskum lögum og alþjóðasamningum,“ skrifar Össur.

Össur þýðir yfirlýsinguna á eftirfarandi máta: „Bandaríkin álíta nú öryggi sínu alvarlega ógnað vegna aðgerða og árása hermdarverkamanna og vegna margvíslegra ógnana frá löndum sem stjórnað er af einræðisherrum og kúgurum. Þau telja að stuðningur frá þessu litla landi skipti máli...“

Össur bendir á að síðar í yfirlýsingu Davíðs sé lýst hvers konar stuðning Ísland muni sýna Bandaríkjunum í verki: „Fyrst af öllu, þá tekur þetta til heimildar til yfirflugs um íslenska flugstjórnarsvæðið. Í öðru lagi til notkunar á Keflavíkurflugvelli ef þörf krefur,“ segir í þýðingu Össurar.

Össur segir ríkisstjórn Íslands virðast hafa heimilað að flugvélar Bandaríkjastjórnar noti Ísland svo fremi þær séu í erindagjörðum sem tengist baráttunni gegn hermdarverkum víðs vegar um heiminn. Sú barátta sé enn í gangi af fullum krafti af hálfu Bandaríkjamanna og þeir eiga enn í illvígum stríðsátökum í Írak.

Össur bendir á að íslenska ríkisstjórnin hafi ekki afturkallað þessa heimild. Það sé því full ástæða til að ætla að Bandaríkjamenn telji sig í krafti yfirlýsingarinnar frá 18. mars 2005 vera í fullum rétti þegar þeir lendi fangaflugvélum sínum á Íslandi, eða fljúga um íslenska flugstjórnarsvæðið.

„Þetta er ástæðan fyrir því að bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra eru á flótta undan fjölmiðlum, sem nær allir greindu frá því í dag, að hvorugur vilji tala við þá um fangaflugvélarnar. Þeir vita upp á sig skömmina,“ skrifar Össur og bætir því við að íslenska ríkisstjórnin verði að afturkalla þessa heimild - og það strax. Eftir því verði gengið á Alþingi við fyrsta tækifæri.

Heimasíða Össurar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert