Búist við miklum átökum á fundi leiðtoga Ameríkuríkja

Knattspyrnugoðið Diego Maradona sýnir á blaðamannafundi bol sem á stendur …
Knattspyrnugoðið Diego Maradona sýnir á blaðamannafundi bol sem á stendur „stöðvið Bush“ og hefur S-inu í Bush verið skipt út fyrir merki nasista, hakakrossinn. Bólivíski forsetaframbjóðandinn Evo Morales hlær að uppátæki Maradona. AP

Leiðtogar landanna 34 sem aðild eiga að Ameríkubandalaginu hafa verið að tínast til argentínska strandbæjarins Mar de Plata þar sem haldinn verður fundur samtakanna um helgina. Atvinnuleysi álfunnar verður helsta umræðuefni fundarmanna. Fulltrúar Bandaríkjanna munu reyna að sannfæra fulltrúa hinna landanna um að fríverslun, aukin einkavæðing og virkara lýðræði sé besta leiðin til þess að draga úr fátækt í álfunni.

Forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, mun verða viðstaddur fundinn og er búist við að hann mæti mikilli andspyrnu þúsunda mótmælenda í dag, sem flykkst hafa til bæjarins. Mun Hugo Chavez, forseti Venesúela, ætla að ávarpa mótmælendur og Diego Maradona, fótboltahetjan fyrrverandi, mun einnig taka þátt í mótmælum ásamt bólivíska forsetaframbjóðandanum Evo Morales, að sögn fréttavefjar BBC.

Munu þekktir einstaklingar úr röðum mótmælenda, Maradona, bosníski kvikmyndaleikstjórinn Emir Kusturica o.fl., koma til bæjarins með lest frá Buenos Aires og munu hundruð rúta fylgja henni með meðlimi félagasamtaka og stjórnmálaflokka ýmiss konar.

Ráðherrar aðildarlandanna hafa átt í samræðum fyrir fundinn. Átta þúsund manna lögreglulið gætir nú Mar de Plata. Helst er búist við ágreiningi milli Chavez og Bush. Hefur Bush viðurkennt að tilraunir Bandaríkjanna til myndunar fríverslunarbandalags Ameríku hafi stöðvast. Ríkisstjórn Venesúela hefur lýst því yfir að hún muni hafna öllum ályktunum sem innihaldi vísanir í slíkt fríverslunarbandalag.

Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) þurfa 96 milljónir Ameríkubúa að draga fram lífið á einum dollara á dag á mann, eða um 60 krónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert