Arnaldur Indriðason hlaut gullna rýtinginn

Arnaldur Indriðason
Arnaldur Indriðason Einar Falur Ingólfsson

Grafarþögn eftir Arnald Indriðason hlaut í dag gullna rýtinginn, verðlaun samtaka breskra glæpasagnahöfunda. Barbara Nadel hlaut silfurrýtinginn við sama tækifæri og Henry Porter hlaut stálrýtinginn sem Ian Flemming stofnunin veitir.

Á heimasíðu samtakanna segir að Grafarþögn sé áhrifamikil saga sem fjalli um hjónaband á Íslandi millistríðsáranna. Þegar lík finnist í grunnri gröf þegar verið er að grafa grunn í úthverfi Reykjavíkur þurfti lögreglumaður að rannsaka sögu svæðisins þar sem áður var berangur. Sambönd fólks liti söguna og söguhetjan, geðþekkur lögreglumaður, leiði saman fortíð og nútíð. Bernard Scudder þýddi bókina á ensku.

Auk Arnaldar voru Karin Fossum, Friedrich Glauser, Carl Hiaasen, Barbara Nadel og Fred Vargas tilnefnd til verðlaunanna. Verðlaunaféð nemur þrjú þúsund pundum en Nadel fær tvö þúsund pund í verðlaun fyrir silfurrýtinginn.

Samtök glæpasagnahöfunda hafa bækistöð sína í Bretlandi og eru þau þekktustu í heiminum í dag. Einungis eru tilnefndar bækur sem komið hafa út á ensku, en meðlimir samtakanna eru vel á fimmta hundrað glæpasagnahöfunda víða um heim.

Vefur Samtaka breskra glæpasagnahöfunda

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert