CIA reyndi að leyna dauða fanga sem lést við yfirheyrslur

Bandarískir hermenn við lík fanga í Abu Ghraib.
Bandarískir hermenn við lík fanga í Abu Ghraib. AP

Starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, virðast hafa reynt að leyna dauða írasks fanga, sem lét lífið þegar verið var að yfirheyra hann í Abu Ghraib fangelsinu í Írak. Bandaríska fréttatímaritið Time skýrir frá þessu í dag en blaðið komst yfir fjölda skjala vegna málsins, þar á meðal krufningarskýrslu.

Niðurstaða krufningar á Manadel al-Jamadi var að honum hefði verið ráðinn bani. Time segir að meðal skjala, sem það hafi fengið í hendur um málið, séu myndir sem sýni limlest lík al-Jamadis, en líkið hefur verið geymt í frysti, að því er virðist til að leyna kringumstæðunum við dauða hans.

Bandarískir sérsveitarmenn handtóku al-Jamadi 4. nóvember 2003 vegna gruns um að hann hefði átt þátt í sprengjuárás á höfuðstöðvar Rauða krossins í Bagdad þar sem 12 manns létu lífið. Var al-Jamadi færður í Abu Ghraib fangelsið án þess að vera skráður þar inn.

Eftir að al-Jamadi hafði verið yfirheyrður í um 90 mínútur af sérfræðingum CIA lést hann „af völdum barsmíða með barefli" og „köfnun" að því er segir í krufningarskýrslu sem Time hefur undir höndum.

Réttarmeinafræðingur, sem fór yfir krufningarskýrsluna, sagði við Time að maðurinn hafi væntanlega kafnað vegna þess að poki hafi verið settur yfir höfuð hans á meðan hendur hans voru bundnar fyrir aftan bak.

Blaðið segir að klór hafi verið notaður til að fjarlægja blóðbletti í yfirheyrsluherberginu og einnig hafi blóðflekkaður pokinn horfið.

Myndir af glottandi bandarískum hermönnum við lík al-Jamadis voru meðal þeirra sem birtust úr Abu Ghraib fangelsinu á síðasta ári og ollu hneykslun og reiði um allan heim. Bandaríkjaher hóf þá rannsókn en að sögn tímaritsins New Yorker er óvíst að útsendarar CIA verði ákærðir fyrir að misþyrma föngum eða jafnvel drepa þá. Sagði tímaritið að CIA sé bendlað við dauða að minnsta kosti fjögurra fanga.

Mark Swanner, starfsmaður CIA sem yfirheyrði al-Jamadi, hefur ekki verið ákærður vegna málsins og vinnur áfram hjá leyniþjónustunni. Hann hefur sagt rannsóknarmönnum, að hann hafi ekki unnið al-Jamadi mein.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert