Hópur tengdur al-Qaeda hótar að „hakka Dani í spað"

Ungmenni í Beirút í Líbanon mótmæla Dönum í dag. Í …
Ungmenni í Beirút í Líbanon mótmæla Dönum í dag. Í baksýn sést ræðismannsskirfstofa Dana í borginni brenna. AP

Hópur herskárra íslamskra öfgamanna, sem tengist hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda, hótaði í dag að ráðast á hagsmuni evrópskra þjóða þar sem umdeildar myndir af Múhameð spámanni hafa birst, og drepa danska ríkisborgara með því að hakka þá í spað.

„Hagsmunir þessara ríkja, þar sem blöð hafa birt hinar auðmýkjandi myndir, verða skotmark okkar," segir Íslamski herinn í Írak í orðsendingu sem birtist á netinu. Voru Danmörk, Frakkland, Holland, Noregur og Spánn sérstaklega nefnd.

Þá eru íslamskir stríðsmenn hvattir til að handsama Dani og „hakka þá í spað" vegna þess að skopmyndirnar birtust fyrst í danska blaðinu Jyllands-Posten.

Samtökin hvetja alla múslima til að ráðast gegn fyrirtækjum, sem eiga viðskipti við fyrrnefnd lönd og vörur frá þeim, einkum frá Danmörku og Noregi. Þá hvetja samtökin Arabaríki til að kalla sendiherra sína heim frá „þessum bölvuðu villutrúarríkjum, sem berjist opinskátt gegn íslam og ráðist á spámanninn."

Einnig eru múslimar hvattir til að taka fé sitt út af bankareikningum í þessum ríkjum, selja þeim ekki olíu og banna ríkisborgurum Arabaríkja að heimsækja þau.

Íslamski herinn í Írak hefur staðið fyrir fjölda mannrána og morða á útlendingum í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert