Líkurnar afar litlar á því að fuglaflensa verði að faraldri í mönnum

Reuters

Að mati helsta vísindaráðgjafa ríkistjórnar Bretlands, Sir David King, eru líkurnar á því að fuglaflensa stökkbreytist og verði að faraldri í mönnum afar litlar. Hann segir allar fréttir af hættu á faraldri „algjörlega afvegaleiðandi.“

Tvö dagblöð í Bretlandi, Sunday Times og Sunday Telegraph, birtu í dag áætlanir stjórnvalda við fuglaflensufaraldri í mönnum og þ.á.m. bréf breska landlæknisins, Sir Liam Donaldson, til skólamálaráðherra Breta, Jacqui Smith. Í því áætlar Donaldson að um 100.000 grunnskólabörn myndu deyja, ef faraldur brytist út, en helmingi færri ef skólum yrði lokað.

Sýni úr svani sem fannst dauður í Fife á Skotlandi í síðustu viku reyndist vera með H5N1-afbrigði fuglaflensuveirunnar. Fjöldamörg sýni hafa verið send til rannsóknar síðan þá og hefur ekkert þeirra reynst smitað af fuglaflensuveiru.

Enn eru sýni sem bíða rannsóknar en þúsundir manna hafa hringt inn og tilkynnt um dauða fugla. Forsætisráðherra heimastjórnar Skotlands, Jack McConnell, segir viðbrögðin við fuglaflensusmitinu hafa verið skjót, árangursrík og vel skipulögð. BBC sagði frá þessu á vef sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert