H5N1-sýktu álftinni sem fannst í Skotlandi kann að hafa skolað dauðri á land

Dauði svanurinn sem fannst í Fife í Skotlandi og reyndist sýktur af fuglaflensuafbrigðinu H5N1 var álft, að því er erfðagreining vísindamanna breskra stjórnvalda hefur leitt í ljós. Ekki liggur fyrir hvort fuglinn sýktist á Bretlandseyjum eða í öðru landi. Sumir sérfræðingar telja allt eins líklegt að hann hafi drepist á hafi úti og skolað upp að Skotlandsströnd.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Álftin fannst 29. mars, en síðan hafa engir aðrir fuglar á Bretlandi greinst með H5N1. BBC hefur eftir heimildamönnum að tilgátan sem vísindamenn gangi nú út frá sé að álftin kunni að hafa drepist yfir Norðursjónum eftir að hafa sýkst í því landi sem hann flaug af stað frá. Frumniðurstöður rannsókna bentu til þess að álftin hafi verið með eiginlega alveg eins vírus og fuglar sem drápust úr H5N1 á þýsku Eystrasaltseynni Rügen í síðasta mánuði.

Álftir frá Íslandi, Skandinavíu og Norður-Rússlandi hafa vetursetu á Bretlandseyjum, Niðurlöndum og við sunnanvert Eystrasalt. Allmargar álftir hafa verið rannsakaðar á Bretlandseyjum undanfarið, en niðurstöður í öllum tilvikum verið neikvæðar. Binda breskir vísindamenn vonir við að álftin sem fannst í Skotlandi hafi verið einangrað tilfelli.

Haft er eftir örverulíffræðingnum Hugh Pennington að staðfestingin á því að um álft hafi verið að ræða auki líkurnar á að fuglinn hafi ekki komist í snertingu við neina aðra fugla á Bretlandseyjum og að þetta hafi verið einangrað tilfelli þar í landi.

Aðrir sérfræðingar hafa bent á að það sé möguleiki að álftin hafi smitast af öðrum fugli á Bretlandseyjum og síðan lagt af stað út yfir hafið í norðurátt áður en hún drapst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert