Eins árs gamalt barn fannst á lífi á morðvettvangi

Lögreglumaður á vettvangi morðsins í Orange sýslu
Lögreglumaður á vettvangi morðsins í Orange sýslu AP

Eins árs gömul stúlka fannst á heimili sínu í Orange sýslu í Kaliforníu þremur dögum eftir að fjölskylda hennar var myrt á heimilinu. Morðingjarnir skildu stúlkuna eftir ásamt látnum foreldrum og bróður. Stúlkan var marin í framan og voru varir hennar sprungnar af þurrki. Lögreglumenn segja að hún hefði ekki lifað af miklu lengur án vatns og matar.

Lögreglumenn fundu fjölskylduna, 30 ára karlmann og 25 ára gamla konu, ásamt syni konunnar sem var 6 ára, þegar þeir fóru til að athuga um fjölskylduna eftir að ekki hafði heyrst frá henni síðan á föstudag. Þau voru þá öll látin nema stúlkan, sem faðmaði lögreglumanninn sem fann hana og brosti til hans.

Lögregluyfirvöld á staðnum hafa ekki gefið upp hvers konar vopn var notað, en útilokar að um morð og sjálfsmorð hafi verið að ræða. Ekki hafði hins vegar verið brotist inn í húsið, svo lögreglu grunar að morðinginn hafi þekkt til fjölskyldunnar.

Yfirvöld segjast halda að morðin hafi verið framin á föstudaginn í síðustu viku, en þá sást síðast til fjölskyldunnar. Parið var frá Víetnam, en ekki er vitað til þess að það hafi átt sér óvini. Maðurinn starfaði við lítið spilavíti í San Bernadino sýslu, en hann hafði áður verið dæmdur fyrir smáglæpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert