Metanknúnir sorpbílar teknir í notkun á morgun

Tveir nýir metanknúnir sorpbílar á vegum Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar verða teknir í notkun á morgun kl. 13 á bílastæðinu við Grasagarðinn og Skautahöllina í Laugardalnum. Borgarstjórinn í Reykjavík mun taka við lyklunum og verða bílarnir svo til sýnis og boðið upp heitt kakó. Þessir bílar nýta eldsneyti sem er unnið úr sorpi í stað jarðefnaeldsneytis. Auk þess eru bílarnir búnir sjálfvirkum tunnulyftum sem eru hraðvirkari og valda minni hávaða- og loftmengun en hefðbundnar lyftur.

Tunnulyfturnar eru íslensk hönnun, alsjálfvirkar og rafknúnar en ekki hefðbundnar glussalyftur. Helstu kostir við þessar lyftur er að þær skapa hagræði með sjálfvirkninni og eru mun hljóðlátari og menga minna en glussalyfturnar þar sem ekki þarf að auka snúning á bílvélinni við losun.

Borgin rekur tíu sorpbíla til söfnunar á heimilissorpi hjá borgarbúum. Stefnt er að því að endurnýja sorpbílana á næstu árum með metanknúnum bílum. Nú eru þeir orðnir þrír og eru af Mercedes-Benz gerð og í eigu Vélamiðstöðvarinnar. Umhverfissvið leigir þá af henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert