Áttræður tekinn fyrir ölvunarakstur

Einn var tekinn fyrir ölvunarakstur í austurbæ Reykjavíkur í gærmorgun. Sá er áttræður karlmaður en hann hefur lítið sem ekkert komið við sögu hjá lögreglunni áður. Þá var karlmaður á fimmtugsaldri stöðvaður fyrir aka undir áhrifum lyfja.

Sextán umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík. Í þriðjungi þeirra varð slys á fólki, flestöll þó minniháttar. Skrásetningarnúmer voru klippt af sjö ökutækjum í gær. Sex reyndust ótryggð en eitt hafði ekki fengið lögboðna skoðun.

Á annan tug ökumanna voru síðan stöðvaðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík í gær. Sá sem hraðast ók mældist á 129 km hraða í Ártúnsbrekkunni. Viðkomandi ökumaður er 17 ára piltur sem hefur einu sinni áður verið stöðvaður fyrir hraðakstur. Þá var hann tekinn á 112 km hraða á svipuðum slóðum. Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir hraðakstur í íbúðargötum í gær en báðir óku á tæplega tvöföldum leyfilegum hámarkshraða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert